Íþróttir

Þrjú stig til Grindavíkur
Mánudagur 23. júlí 2018 kl. 22:31

Þrjú stig til Grindavíkur

Grindavík tók á móti Keflavík í nágrannaslag í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Leikurinn endaði með 3-0 sigri Grindvíkinga og hefur Grindavík því farið með sigur af hólmi í báðum leikjum liðanna í sumar.

Keflavík hóf leikinn af krafti og sótti stíft að marki Grindvíkinga en þrátt fyrir kröftuga byrjun Keflavíkur, skoraði Grindavík fyrsta mark leiksins á 19. mínútu og var það Will Daniels sem skoraði fyrir heimamenn. Aðeins fimm mínútum síðar skoraði Grindavík sitt annað mark en Sito skoraði úr víti eftir að Sindri, markmaður Keflavíkur tók leikmann Grindavíkur niður inn í teig. Staðan því 2-0 í hálfleik.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Seinni hálfleikur byrjaði af krafti, líkt og sá fyrri og á 49. mínútu skoraði Alexander Veigar þriðja mark Grindavíkur eftir skyndisókn. Keflavík gerði fyrstu breytingu sína í leiknum á 56. mínútu þegar Einar Orri Einarsson kom inn á og út af fór Dagur Dan Þórhallson. Á 59. mínútu fór Sito út af og í hans stað kom Jóhann Helgi Hannesson, þá fór Jeppe Hansen út af í liði Keflavíkur og inn á kom Lasse Rise á 68. mínútu. Jóhann Helgi Hannesson stoppaði stutt á vellinum en hann kvartaði yfir verk í höfði eftir höfuðhögg fyrr í leiknum og var því tekinn út af, í hans stað koma Aron Jóhannsson.

Keflavík gerði síðustu skiptingu sína í leiknum á 74. mínútu þegar Tómas Óskarsson kom inn á fyrir Leonard Sigurðsson. Þá fór Will Daniels út af á 81. mínútu og í hans stað kom Matthías Örn Friðriksson. Alls fóru sex gul spjöld á loft í leiknum og eitt rautt en Þorsteinn Magnússon, liðstjóri Grindavíkur fékk rautt spjald á 7. mínútu. Boðið var upp á grannaslag af bestu gerð í kvöld í Grindavík en þeir gulklæddu hafa samtals unnið 5-0 í viðureignum liðanna í sumar.

Keflavík er enn á botni deildarinnar og Grindavík kom sér í fimmta sæti með sigrinum í kvöld. Hér að neðan má sjá viðtöl við Alexander Veigar, leikmann Grindavíkur og Eystein Húna, þjálfara Keflavíkur eftir leik.

Rannveig Jónína, blaðamaður Víkurfrétta tók meðfylgjandi myndir á leiknum í kvöld.

 

Grindavík-Keflavík