Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þrjár sveitir frá Suðurnesjum í Reykjavíkurrallinu
Fimmtudagur 16. ágúst 2007 kl. 14:59

Þrjár sveitir frá Suðurnesjum í Reykjavíkurrallinu

Reykjavíkurrallið hefst í dag en það er jafnframt lengsta rall ársins á Íslandi. Keppnin í efsta flokki, grúbbu N, er hörð og spennandi þar sem tvær vaskar sveitir frá Suðurnesjum eru í toppbaráttunni. Þá er einn Suðurnesjabíll í flokki 1600 cc. Víkurfréttir hittu á ökuþóra Suðurnesjabílanna í höfuðborginni þar sem verið var að yfirfara alla bíla fyrir keppnina miklu sem hefst við Perluna kl. 17:00 í dag. Eknar verða þrjár sérleiðir, í dag, föstudag og á laugardag. Þjónustuhlé verða við Smáratorg í dag og á morgun.

 

Jón Bjarni Hrólfsson og Borgar Ólafsson-Subaru Impreza 2002

Jón og Borgar eru í 3. sæti í heildarkeppninni en hafa mætt ýmsu mótlæti við færslu sína upp úr 2000 cc flokki og upp í grúbbu N. Þetta er fyrsta sumarið þeirra í efstu deild og segjast félagarnir hafa lært töluvert það sem af er keppnistíðinni. Þeir eru klárir í slaginn og segja bílinn í fínu formi.

,,Við ætlum bara að taka þetta hratt og örugglega um helgina. Full ferð frá fyrsta meter. Ef maður slakar eitthvað á í fyrstu leið þá getur maður misst aðra ökumenn töluvert fram úr sér og það er erfitt að vinna upp þann tíma,” sagði Borgar Ólafsson, aðstoðarökumaður. Ökumaðurinn Jón Bjarni segir þá félaga ekki ætla að gefa neitt eftir. ,,Þetta er kannski reynslusumarið mikla hjá okkur en við komum bara mun sterkari til leiks á næstu leiktíð. Tilfinningin er góð fyrir helginni og ég held að við höfum bara aldrei verið eins vel stemmdir fyrir rall eins og núna,” sagði Jón. Bíllinn er í góðu ásigkomulagi en helsta áhyggjuefni Jóns og Borgars fyrir helgina er að dekk springi hjá þeim á einhverri sérleiðinni. Þeir hafa mátt glíma við álíka vandamál í sumar, hafa verið nokkuð óheppnir en eru engu að síður í 3. sæti í heildarkeppninni.

 

Óskar Sólmundarson og Valtýr Kristjánsson-Subaru Impreza VRC 2001

Bíll Óskars og Valtýs var smíðaður af Pro Drive sem skoðunarbíll fyrir Norðmanninn góðkunna Petter Solberg og á sér því góða sögu. Kapparnir vonast til þess að Solberg hafi skilið eitthvað af hæfileikum sínum eftir í bílnum og að hann skili öllum hestöflunum um helgina.

,,Reykjanesrallið var mikil vonbrigði fyrir okkur, við vorum á góðum stað fyrri daginn en byrjuðum á því að sprengja framdekk á annarri leið seinni keppnisdaginn. Það kostaði okkur fjórar mínútur og þ.a.l. þriðja sæti í rallinu,” sagði Óskar sem er ökumaður. Aðstoðarökumaðurinn Óskar segir að margt beri að varast um helgina en á von á skemmtilegri keppni. ,,Rallið kallar á mikla skipulagningu og maður vinnur þetta rall með því að keyra ekki 110% eins og maður myndi gera í eins dags ralli. Við þurfum að eiga það fyrir síðasta daginn að geta tekið vel á því og pínt bílinn,” sagði Óskar. Báðir voru þeir sammála um að tími væri kominn á það að velgja forystusauðunum undir uggum og fikra sig ofar í stigatöflunni fyrir síðasta rallið.

 

Henning Ólafsson og Rúnar Eiríksson-Toyota Corolla

,,Ég hef keppt af og til með hléum en í ár tek ég þetta af aðeins meiri alvöru,” sagi Henning Ólafsson sem keppir í 1600cc flokki. Henning og Rúnar berjast af hörku um 2. sætið í Íslandsmótinu en það fyrsta er úr sjónmáli. Langt er í efsta mann en Henning segir baráttuna um silfrið vera spennandi.

,,Það hefur gengið mjög vel í sumar þrátt fyrir að þetta sé fyrsta árið okkar í þessum flokki. Möguleikinn á Íslandsmeistaratitli er fræðilegur en mjög fjarlægur,” sagði Henning sem rétt eins og kunningjar sínar af Suðurnesjum í grúbbu N var ósáttur við árangur sinn í Reykjanesrallinu. ,,Við lentum út af á heimavelli því ég ætlaði mér einfaldlega of mikið og þá verður fallið oft hærra,” sagði Henning sem keppir á 120 hestafla Toyota Corollu.

 

[email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024