Þrír Suðurnesjaleikir í Visa-bikarnum í kvöld
Þrjú Suðurnesjalið leika í kvöld í 32 liða úrslitum Visa-bikars karla í knattspyrnu. Á Garðsvelli taka Víðismenn á móti Fylki. Grindvíkingar verða á heimavelli á móti Þór og á Njarðtaksvellinum eigast við Keflvíkingar og KS/Leiftur. Allir leikirnir hefjast kl. 19:15.
Víðir spilar í 2. deild en Fylkir í Pepsi-deildinni. Þrátt fyrir það eru Víðismenn fullir tilhlökkunar fyrir leikinn. Það var a.m.k að heyra á þjálfara þeirra, Jakobi Má Jóharðssyni þegar VF hafði samband.
„Þetta leggst ágætlega í okkur. Það er alltaf gaman fyrir smærri liðin að fá stóru liðin í heimsókn og flott fyrir strákana að fá að kljást við bestu fótboltalmenn landsins. Við hlökkum mikið til og ætlum sannarlega að láta þá hafa fyrir hlutunum,“ sagði Jakob.
Hann segir sumarið leggjast vel í sig og búast megi við að það verði í senn erfitt, spennandi og gaman.
Mikil endurnýjun varð í liðinu fyrir tímabilið þannig að allir leikmenn nema tveir koma nýir inn. „Ég hafði gert mér vonir um að kjarninn í liðinu héldist en sú varð ekki raunin. Við erum nánast með nýtt lið og okkur hefur tekist ágætlega að fylla í skörðin. Þetta eru ungir, dugmiklir og samheldnir strákar og þeir fara langt á því. Inn á milli eru reynsluboltar sem við fengum með okkur. Með nýju liði tekur ákveðinn tíma að finna réttu samsetninguna og stilla saman strengina. Við erum á ágætis leið með það, byrjuðum reyndar ekki vel í deildinni, töpuðum tveimur fyrstu leikjunum en unnum síðan tvo bikarleiki og síðasta deildarleik þannig að þetta er klárlega á réttri leið hjá okkur,“ sagði Jakob Már.
--
VFmynd/Hilmar Bragi - Frá leik Víðis og KS/Leifturs á dögunum.