Þrír reynsluboltar yfirgefa Keflavík
Haraldur og Magnús Sverrir hættir
Þrír af reyndustu leikmönnum Keflvíkinga í karlafótboltanum munu ekki leika með liðinu á næsta tímabili. Eins og áður hefur verið greint frá þá hefur Haraldur Freyr Guðmundsson lagt skóna á hilluna en Magnús Sverrir Þorsteinsson mun einnig ganga frá skónum í skápinn góða. Þá mun Magnús Þórir Matthíasson ekki leika áfram með liðinu en ekki er ljóst hvort eða hvar hann mun leika á næsta tímabili. Frá þessu er greint á heimasíðu Keflavíkur.
Samtals eiga þessir leikmenn að baki 39 leiktímabil og tæplega 900 leiki með meistaraflokki Keflavíkur. Haraldur hefur leikið 200 deildarleiki með Keflavík og skorað í þeim átta mörk. Auk þess hefur hann leikið 27 bikarleiki og skorað fimm mörk og 78 leiki í deildarbikarnum og þar eru mörkin þrjú.
Magnús Sverrir hefur alls leikið 17 tímabil með liðinu en Magnús lék auk þess eitt tímabil með Grindavík. Hann hefur leikið 244 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað í þeim 46 mörk, 34 bikarleiki þar sem Magnús hefur skorað tólf mörk og sjö leiki í Evrópukeppnum þar sem eitt mark fylgir með. Leikirnir í deildarbikarnum eru 93 en þar er Magnús leikjahæsti leikmaður Keflavíkur og mörkin í keppninni eru 29. Hann hefur leikið 213 leiki fyrir Keflavík í efstu deild og er þar þriðji leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi.
Magnús Þórir hefur leikið 129 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað í þeim 18 mörk. Hann hefur einnig leikið 13 bikarleiki og skorað fjögur mörk auk eins leiks í Evrópukeppni og 33 leiki í deildarbikarnum þar sem mörkin eru 12.