Þrír Íslandsmeistaratitlar á Suðurnesin
Fyrri úrslitahelgi yngri flokka í körfuknattleik fór fram í DHL-Höllinni í Reykjavík um helgina þar sem Suðurnesjaliðin voru fyrirferðamikil og lönduðu þremur Íslandsmeistaratitlum. Njarðvíkingar unnu tvöfalt í 10. flokki og Grindvíkingar urðu í fyrsta sinn Íslandsmeistarar í unglingaflokki kvenna.
Í 10. flokki kvenna mættust Njarðvík og Grindavík og lauk leiknum með spennusigri Njarðvíkinga 52-50. Guðbjörg Sverrisdóttir var valin besti maður leiksins í liði Hauka með 28 stig, 13 fráköst og 2 stoðsendingar en í liði Njarðvíkinga var Heiða Valdimarsdóttir valin besti leikmaðurinn með 13 stig og 13 fráköst.
Njarðvíkurpiltar í 10. flokki mættu Fjölni í úrslitaleiknum og þar höfðu Njarðvíkingar góðan 49-41 sigur. Andri Fannar Freysson var valinn besti maður leiksins úr röðum Njarðvíkinga með 14 stig, 6 stoðsendingar og 2 fráköst.
Unglingaflokkur Grindavíkurkvenna landaði Íslandsmeistaratitlinum nokkuð örugglega með stórsigri á Haukum 77-57. Lilja Sigmarsdóttir var valin besti maður leiksins úr Grindavíkurliðinu með 16 stig og 10 fráköst en Helena Hólm var valin besti maður leiksins úr liði Hauka með 17 stig og 4 fráköst. Þetta er í fyrsta sinn sem Grindvíkingar verða Íslandsmeistarar í unglingaflokki kvenna.
Þá mættust Keflavík og KR í úrslitum drengjaflokks þar sem KR hafði betur 82-81.
Nánar verður greint frá úrslitahelginni í Víkurfréttum á miðvikudag en blaðið kemur út þann daginn þar sem sumardagurinn fyrsti er á fimmtudag.
VF-Mynd/ [email protected]– Njarðvíkurstúlkur í 10. flokki hefja Íslandsbikarinn á loft í DHL-Höllinni í gær.