Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriggjastigaskyttan Thelma Dís
Thelma Dís varð Íslandsmeistari með liði Keflavíkur áður en hún hélt í nám til Bandaríkjanna, þá var hún einnig valin besti leikmaður tímabilsins 2016–2017. Mynd af Instagram-siðu Thelmu
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 27. apríl 2023 kl. 09:52

Þriggjastigaskyttan Thelma Dís

Ein sú allra besta í háskólaboltanum

Keflvíkingurinn Thelma Dís Ágústsdóttir hefur stundað háskólanám við Ball State University í Indiana í Bandaríkjunum síðan árið 2018 og leikið með körfuboltaliði skólans í Mið-Ameríkudeild efstu deildar háskólaboltans.

Thelma Dís skilaði þrettán stigum, fjórum fráköstum og tveimur stoðsendingum að meðaltali í leik á síðasta tímabili og hún er þar að auki frábær þriggja stiga skytta, með 42.3% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Fyrir þessa glæsilegu skotnýtingu fékk hún að taka þátt í þriggja stiga keppni sem er haldin í kringum einhverja allra stærstu körfuboltaleiki sem spilaðir eru í Bandaríkjunum hvert ár, Marsfárinu. Afrekið er ekki síst merkilegt í ljósi þess að tímabilið 2022/2023 kepptu á sjötta þúsund leikmenn í efstu deild háskólabolta kvenna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Var ekki skemmtilegt að fá að taka þátt í þriggja stiga keppninni?

„Jú, það var ótrúlega skemmtilegt. Þetta var örugglega það stærsta sem ég hef nokkurn tímann tekið þátt í þannig það var stressandi þegar það var loksins komið að manni að skjóta, sérstaklega því við vorum búnar að sitja í u.þ.b. klukkutíma að horfa án þess að fá að gera neitt. En ég kynntist líka fullt af nýju fólki og það var mjög gaman að hafa smá stuðning úr stúkunni frá þjálfurunum mínum og vinkonu.“

Thelma Dís er óhrædd við að láta vaða – enda öflug skytta.

Nú ertu að ljúka frábærum háskólaferli í Bandaríkjunum, hvað stendur upp úr frá þessum árum?

„Það er erfitt að velja bara eitthvað eitt. Ég er búin að upplifa svo ótrúlega margt á þessum fimm árum, bæði innan og utan vallar. Ég fékk að fara í margar skemmtilegar ferðir, t.d. til Bahamas og Puerto Rico, og ég fékk líka að spila við stóra skóla eins og Notre Dame. Það var mjög skemmtilegt þegar ég náði loksins að bæta þriggja stiga met skólans í síðasta leiknum mínum en svo var líka geggjað þegar við unnum Toledo í undanúrslitum í fyrra þegar mjög fáir höfðu trú á okkur,“ sagði Thelma Dís en auk þess að spila körfubolta kláraði hún bs-gráðu í tryggingastærðfræði og er nú að leggja lokahönd á master í tölfræði.

Finnst þér þú hafa tekið framförum sem leikmaður eftir að hafa fengið þessa reynslu?

„Já, alveg 100%. Það er svo ótrúlega mikill agi á öllu og með fjóra þjálfara á hverri einustu æfingu þá er alltaf einhver sem er að benda manni á hvað má laga og hvað er hægt að gera betur. Ég er líka búin að þroskast alveg ótrúlega mikið á þessum tíma og mæli hiklaust með þessu fyrir alla sem eiga möguleika á að fara út í skóla að grípa tækifærið.“

Hefur þú fylgst með Keflavíkurliðinu?

„Ég náði ekkert alltof mikið að fylgjast með þeim í vetur annað en bara hvort þær hefðu unnið síðasta leik eða ekki. Ég horfði samt á mikið af seríunni á móti Njarðvík og finnst þær líta mjög vel út þannig að ég er spennt að sjá hvernig þær standa sig á móti Val í úrslitunum.“

Hverju spáir þú um úrslitin milli Keflavíkur og Vals? (Spurt rétt fyrir úrslitakeppnina.)

„Ég ætla að segja að Kef taki þetta 3:1.“

Nú ert þú uppalin í Keflavík, sérðu fyrir þér að snúa aftur heim eða er eitthvað annað framundan?

„Það er eiginlega ennþá alveg óljóst. Er ennþá að skoða allt sem er í boði en verð vonandi búin að ákveða hvað ég geri stuttu eftir að ég kem heim í sumar,“ sagði Thelma Dís að lokum en það er nokkuð ljóst að hún ætti ekki að vera í vandræðum með að finna sér lið í Subway-deildinni – vonum bara að það verði á Suðurnesjum.