Þriðji sigurinn í röð hjá Keflavík
Keflvíkingar lönduðu sínum þriðja deildarsigri í röð í gærkvöld er þeir mættu FSu á Selfossi í Iceland Express deild karla. Lokatölur í Iðu voru 63-75 Keflavík í vil en heimamenn máttu þola sinn fimmta ósigur í röð og sitja því áfram á botninum ásamt Fjölnismönnum sem steinlágu í Hólminum í kvöld.
Reynsluboltinn Gunnar Einarsson var þokkalega sáttur við sigurinn og kvað hann af meiri skyldurækni en annað: ,,Þetta var bara spurning um að fara þangað og klára þetta og fara svo heim að sofa,“ sagði Gunnar í samtali við Karfan.is en hann gerði 14 stig í leiknum, tók 2 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.
Rashon Clark var stigahæstur hjá Keflavík með 24 stig og 12 fráköst en næstur honum var Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 15 stig og 10 fráköst.
Mynd – Gunnar Einarsson á leið upp að körfunni.
Mynd og texti af www.karfan.is