Þriðji sigur Grindvíkinga í röð
Það var sannkallaður fallslagur þegar Grindavík tók á móti Þrótti í Pepsi deild kvenna í gærkvöld. Leikurinn fór fremur rólega af stað og var það kannski aðeins gegn gangi leiksins að heimastúlkur skoruðu fyrsta mark leiksins á 34. mín, úr þeirra fyrsta alvöru færi. Dernelle Mascall skallaði þá í markið eftir góða sendingu frá Söru Helgadóttur.
Við þetta færðist líf í heimastúlkur og fljótlega voru þær búnar að bæta við öðru marki. Aftur var það Dernelle sem skoraði og að þessi sinni kom hún boltanum yfir marklínuna af harðfylgi í vítateig Þróttar á 45. mín og staðan orðin 2-0 og skömmu síðar var flautað til leikhlés.
Ekki var mikið um tíðindi framan af síðari hálfleik en á 71.mín dró þó til tíðinda. Shaneka Gordon, hinn eldfljóti framherji Grindavíkur, gerði þá þriðja mark heimastúlkna og héldu þá flestir að úrslit væru ráðin enda gestirnir ekki gert sig líklega í lengri tíma.
Þróttarar náðu þó að hleypa spennu í leikinn með tveimur mörkum undir lokin. En lengra komust Þróttarar ekki og Grindavíkurstúlkur fögnuðu þriðja sigri sínum í röð og um leið þriðja sigri sínum í sumar. Grindvíkingar komust með sigrinum að hlið KR-inga og eru með 10 stig í 9. sæti.