Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þriðji leikhluti reyndist Njarðvíkingum dýrkeyptur
Deedrick Basile var atkvæðamikill hjá Njarðvík í gær, gerði 24 stig, hirti þrjú fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Mynd af Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 3. október 2021 kl. 13:43

Þriðji leikhluti reyndist Njarðvíkingum dýrkeyptur

Njarðvík mætti Þór í Þorlákshöfn í leik Íslandsmeistara og bikarmeistara tímabilsins 2020–2021 í körfuknattleik karla. Það voru Þórsarar sem höfðu betur og eru því meistarar meistaranna en þeir gerðu út um leikinn má segja í þriðja leikhluta.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og unnu fyrsta leikhluta 25:21. Bæði lið settu sig í sóknargírinn í öðrum leikhluta þar sem Njarðvíkingar skoruðu 38 stig gegn 32 stigum heimamanna. Njarðvík leiddi því í hálfleik 57:59.

Í þriðja leikhluta lokaði vörn Þórs vel á Njarðvík á sama tíma og sókn þeirra fór hamförum. Njarðvík náði ekki að gera nema tólf stig á meðan Þór tók afgerandi forystu með því að setja niður 32 stig. Átján stiga munur fyrir síðasta leikhluta sem reyndist of mikill munur fyrir Njarðvík að vinna upp. Lokatölur urðu 113:100 fyrir Þór.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Atkvæðamestir hjá Njarðvík: Fotios Lampropolous skoraði 26 stig og tók ellefu fráköst, Deedrick Basile var með 24 stig, þrjú fráköst og fjórar stoðsendingar. Mario Matasovic 19/6/2, Nikolas Richotti 18/3/5.

Deildarkeppnin hefst í vikunni

Úrvalsdeild kvenna hefst á miðvikudag. Þá taka Keflvíkingar á móti Skallagrími og Grindvíkingar á móti Val, báðir leikirnir hefjast klukkann 19:15. Njarðvík sækir Hauka heim í fyrstu umferð og hefst leikur þeirra klukkan 20:15.

Úrvalsdeild karla hefst á fimmtudag. Þá fá Njarðvíkingar tækifæri til hefnda en þeir taka á móti Þór Þorlákshöfn í fyrstu umferð og hefst leikurinn klukkan 18:15. Á sama tíma fer fram leikur Grindavíkur og Þórs Akureyri í Grindavík. Keflvíkingar halda til Ísafjarðar og leika gegn Vestra klukkan 19:15.