Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þreyttur á silfurverðlaunum
Fimmtudagur 17. ágúst 2006 kl. 13:24

Þreyttur á silfurverðlaunum

Gylfi Freyr Guðmundsson er í vænlegri stöðu fyrir lokaumferðina í Íslandsmótinu í Motocross sem fram fer á Sólbrekkubraut í Reykjanesbæ um helgina. Gylfi er efstur í Íslandsmótinu í flokki MX1 með 177 stig en félagi hans Aron Ómarsson er í 10. sæti með 87 stig og þessir ungu ökuþórar eru að skjóta reyndustu motocrossökumönnum landsins ref fyrir rass.

„Sólbrekkubraut er minn heimavöllur og því er ég aðeins rólegri fyrir keppnina en vanalega,“ sagði Gylfi Freyr sem ætlar ekki að hugsa um það að hann sé efstur í mótinu fyrir lokakeppnina heldur halda ró sinni og vera öruggur í sínum aðgerðum í keppninni. „Ég er orðinn þreyttur á silfurverðlaunum og ætla að gera pláss fyrir gullið,“ sagði Gylfi léttur í bragði en hann er einungis 21 árs gamall en hefur verið að keppa í motocrossi í fimm ár en aldrei orðið Íslandsmeistari.

„Það verður allt að vera fullkomið um helgina, hjólið og ég,“ sagði Gylfi sem vill helst að Sólbrekkubraut verði blaut á laugardag. „Þegar brautin er blaut þá er ekkert ryk, gripið er betra og því hægt að ná miklum hraða,“ sagði Gylfi. Annar ökumaður af Suðurnesjum er Aron Ómarsson en hann er öllu yngri en Gylfi. Aron er í 10. sæti fyrir lokamótið og hefur vakið athygli fyrir vaska framgöngu þrátt fyrir ungan aldur. „Aron er mjög hraður og ég hugsa að það verði ég eða hann sem vinnum um helgina,“ sagði Gylfi en hverfandi líkur eru á því að Aron nái Íslandsmeistaratign en hann getur komist ofarlega í töfluna með góðum árangri um helgina. „Aron er yngri en ég og hann vantar smá reynslu en hann hefur verið að standa sig mjög vel í sumar,“ segir Gylfi um félaga sinn.Fastlega má gera ráð fyrir því að félagarnir verði framarlega um helgina og berjist hart sín á milli.

Vélhjólaíþróttafélag Reykjaness stendur að mótinu sem hefst í Sólbrekkubraut á laugardag kl. 13:00.

 

Mynd 1: Gylfi Freyr

Mynd 2: Gylfi og Aron á Sólbrekkubraut

 

[email protected]

 


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024