Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þrettán mörk í tveimur leikjum
Markvörður KF hafði í nógu að snúast í leiknum gegn Njarðvík. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 30. júní 2022 kl. 16:19

Þrettán mörk í tveimur leikjum

Það var mikið skorað í leikjum Suðurnesjaliðanna í 2. deild karla í knattspyrnu í gær. Njarðvíkingar fóru illa með KF á Rafholtsvellinum (6:0) og Reynismenn töpuðu naumlega fyrir Víkingi Ólafsvík á Blue-vellinum (3:4), þeirra fyrsti leikur undir stjórn nýs þjálfara, Bjarka Más Árnasonar.

Njarðvík - KF 6:0

Kenny Hogg kom Njarðvíkingum á bragðið.

Njarðvíkingar voru seinir í gang og stálheppnir að lenda ekki undir snemma í leiknum, augljóst að bikarleikurinn gegn KR sat í leikmönnum sem voru frekar þungir á sér í byrjun. Eftir rífllega 25 mínútna leik fóru hjólin að snúast hjá heimamönnum. Kenneth Hogg skoraði fyrsta markið (26') og Oumar Diouck bætti um betur tólf mínútum síðar (38'). Hreggviður Hermannsson jók forystuna í þrjú mörk í uppbótartíma (45'+1) og þannig stóð í hálfleik.

Bergþór Ingi Smárason átti góða marktilraun í byrjun seinni hálfeiks en markvörður KF sýndi glæsimarkvörslu og sló boltann í slánna. Bergþór Ingi missti ekki marks á 51. mínútu þegar hann skoraði fjórða mark Njarðvíkur. Ari Már Andrésson (63') og Úlfur Árni Björnsson (65') skoruðu sitt markið hvor og eftir það slökuðu Njarðvíkingar á og héldu fengnum hlut.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bergþór Ingi með gott skot en mögnuð markvarsla kom í veg fyrir mark.

Njarðvík er sem fyrr efst í deildinni og hafa ekki tapað leik á tímabilinu.


Reynir - Víkingur Ó. 3:4

Það skiptust á skin og skúrir í leik Reynis og Víkinga í gær en bæði lið þurftu verulega á stigum að halda í botnbaráttunni. Reynismenn komust yfir á 9. mínútu þegar leikmaður Víkings varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Sæþór Ívan skorar þriðja mark Reynis.

Gestirnir jöfnuðu og komust yfir á tveggja mínútna kafla (18' og 20') en Reynismenn snéru taflinu sér í vil tíu mínútum síðar. Fyrst var það Hörður Sveinsson sem skoraði úr víti (30') og Sæþór Ívan Viðarsson skoraði þriðja marki Reynis skömmu síðar (33'). Aftur jöfnuðu gestirnir (41') og staðan því 3:3 í hálfleik.

Elton „Fufura“ Barros kom inn á í seinni hálfleik og var oft aðgangsharður upp við mark gestanna.

Víkingar skoruðu eina markið í seinni hálfleik (64') en Reynismenn sóttu stíft en var fyrirmunað að koma boltanum í netið.

Reynir situr í neðsta sæti deildarinnar þegar hún er hálfnuð en það er stutt í næstu lið og þarf lítið að breytast til að liðið komist úr fallsæti.

Nýr þjálfari Reynis, Bjarki Már Árnason, stýrði liðinu í gær í fyrsta sinn en hann er nýtekinn við starfi aðalþjálfara af Luka Jagačić.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leikjum gærdagsins og tók myndir sem má sjá í myndasöfnum neðst á síðunni.

Njarðvík - KF (6:0) | 2. deild karla 29. júní 2022

Reynir - Víkingur Ó. (3:4) | 2. deild karla 29. júní 2022