Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þrenna Radic tryggði sigur á Leikni og rangur maður rekinn af velli í Grafarvogi
Radic fagnar þriðja marki sínu í kvöld. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 18. júlí 2024 kl. 22:52

Þrenna Radic tryggði sigur á Leikni og rangur maður rekinn af velli í Grafarvogi

Keflvíkingar lögðu ÍR-inga manni færri

Það gekk á ýmsu í þrettándu umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Njarðvík komst aftur á sigurbraut þegar Dominik Radic skoraði þrennu í stórskemmtilegum leik sem endaði með 3:2 sigri Njarðvíkur á Leikni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvík vann sigur á sterkum heimavelli ÍR-inga með einu marki gegn engu. Keflvíkingar lékum manni færri allan seinni hálfleik eftir að Gunnlaugi Fannari Guðmundssyni var vikið af velli í lok fyrri hálfleiks.

Ótrúleg uppákoma átti sér stað í stöðunni 1:1 í leik Fjölnis og Grindavíkur í kvöld þegar rangur Grindvíkingur fékk að líta rauða spjaldið en leikur Grindvíkinga hrundi eftir það og leiknum lauk með 5:1 sigri Fjölnis.

Njarðvík - Leiknir 3:2

Njarðvíkingar lentu snemma undir þegar Leiknismennn laumuðu stundusendingu inn fyrir vörnina á Omar Sowe sem lék á Aron Snæ Friðriksson í markvörð Njarðvíkur og skoraði í autt markið (5’).

Leiknismenn voru hættulegir í byrjun og Omar Sowe var nærri því að tvöfalda forystuna skömmu eftir markið en þá sá Aron Snær við honum og varði vel.

Dominik Radic jafnaði leikinn á fimmtándu mínútu eftir góða sendingu Tómasar Bjarka Jónssonar.

Radic var alls ekki hættur því skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks sendi Joao Ananias glæsilega sendingu inn á markteig sem Radic stýrði í netið (41’).

Seinni háflleikur var fjörugur og bæði lið sköpuðu sér góð færi. Það var hins vegar maður leiksins, Dominik Radic, sem var fyrstur til að koma boltanum í markið. Eftir fyrirgjöf Hreggviðs Hermannssonar náði Radic skoti en markvörður ÍR varði. Boltinn hrökk aftur til Radic sem klikkaði ekki í seinna skiptið og hamraði hann í markið (77’).

Njarðvík komið með tveggja marka forystu og þarna héldu margir að björninn væri unninn. Það reyndist ekki vera svo einfalt því Leiknismenn jöfnuðu fljótlega (83’) og settu talsverða pressu á heimamenn síðustu mínúturnar.

Leiknir setti allan kraft í að jafna og sóttu stíft, við það opnaðist á hraðasóknir Njarðvíkinga sem komust oftar en einu sinni í álitleg færi.

Á lokamínútu venjulegs leiktíma munaði litlu að Leiknir jafnaði þegar boltinn hafnaði í stönginni en vörn heimamanna hélt út og Njarðvíkingar eru komnir á sigurbraut að nýju.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á Rafholtsvellinum í kvöld. Viðtal við Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfara Njarðvíkinga, og myndasafn er að finna neðst á síðunni.

ÍR - Keflavík 0:1

Ásgeir Páll skoraði mark Keflvíkinga.

Keflvíkingar gerðu góða ferð í Breiðholtið og urðu fyrsta liðið til að vinna ÍR-inga í Mjóddinni á þessu tímabili.

Það var Ásgeir Páll Magnússon sem skoraði eina mark leiksins og það gerði hann snemma í leiknum (6’).

Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk Gunnlaugur Fannar Guðmundsson að líta beint rautt spjald þegar hann lét skapið hlaupa með sig í gönur og gaf leikmanni ÍR olnbogaskot. Keflvíkingar því einu marki yfir og manni færri þegar flautað var til hálfleiks.

ÍR-ingar náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og Keflvíkingar börðust vel fyrir sigrinum sem var þeirra að lokum.

Fjölnir - Grindavík 5:1

Josip Krznaric, markaskorari Grindvíkinga í kvöld.

Fjölnismenn náðu forystu á elleftu mínútu en Josip Krznaric jafnaði rétt fyrir leikhlé.

Í seinni hálfleik átti sér stað ótrúlegt atvik sem á örugglega eftir að vera umtalað.

Þá sækja Fjölnismenn og Eric Vales virðist hafa rekið höndina í andlit Mána Austmann Himarssonar, sóknarmanns heimamanna. Dómari leiksins flautar víti og vísar Dennis Nieblas af velli með rautt spjald. Það skal tekið fram að Nieblas var fyrir utan teig þegar brotið átti sér stað og því hvergi nærri.

Þrátt fyrir mótmæli Grindvíkinga og tilraun Mána til að leiðrétta dómarann lét hann engu að síður rangan mann fara af velli. Ótrúlega einkennileg dómgæsla verður maður að segja.

Máni Austmann fór á vítapunktinn og skoraði örugglega (60’).

Eitthvað virðist þessi uppákoma hafa slegið Grindvíkinga út af laginu því Máni skoraði tvívegis til viðbótar (78’ og 90’) og Axel Freyr Harðarson innsiglaði stórsigur heimamanna með fimmta marki Fjölnis í uppbótartíma (90’+3).

Viðtal við Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfara Njarðvíkinga, eftir sigur á Leikni.

Njarðvík - Leiknir (3:2) | Lengjudeild karla 18. júlí 2024