Þórarinn Kristjánsson leikmaður ársins
Þórarinn Kristjánsson var valinn leikmaður ársins hjá Keflavík á lokahófi knattspyrnudeildarinnar sem haldið var á Ránni í gærkvöldi. Þórarinn er svo sannarlega heiðursins verður; hann var að leika frábærlega í sumar og varð næstmarkahæsti leikmaður 1. deildar með 14 mörk í 17 leikjum. Þórarinn er leikjahæstur leikmanna Keflavíkurliðsins í dag þrátt fyrir að vera aðeins 22 ára gamall en hann hefur leikið 107 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað í þeim 40 mörk. Fjölmargar viðurkenningar og verðlaun voru veitt á lokahófinu um leið og sigri í deildinni og úrvalsdeildarsæti að ári var fagnað.