Þór Þ. sigraði Keflavík
Keflvíkingar komu stigalausir heim úr Þorlákshöfn eftir 74-71 tap gegn Þór í Dominos deild karla í kvöld.
Leikurinn var nokkuð jafn í byrjun en Þórsarar tóku flottan kafla í lok fyrri hálfleiks og komust í tíu stiga forystu. Staðan í hálfleik 40-30. Keflvíkingar hertu sig í þriðja leikhluta, skelltu í svæðisvörn og náðu að minnka muninn niður í tvö stig og var staðan 55-53 í lok þriðja leihluta. Keflvíkingar byrjuðu fjórða leikhlutann aðeins betur og náðu að komast yfir en það varði þó stutt, Þórsarar svöruðu fyrir sig, tóku aftur forystuna og héldu henni út leikinn. Lokatölur 74-71.
Tobin Carberry var bestur Þórsara með 30 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar en Ólafur Helgi Jónsson var með 11 stig og 5 fráköst. Hjá Keflvíkingum var Amin Stevens með 22 stig og 12 fráköst, Magnús Már Traustason með 13 stig og Hörður Axel Vilhjálmsson með 12 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar.