Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þoli ekki fólk sem labbar hægt
Upplegg vikunnar á Vilborg Jónsdóttir, fyrirliði meistaraflokks kvenna hjá Njarðvík.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 16. október 2021 kl. 08:11

Þoli ekki fólk sem labbar hægt

Nýliðar Njarðvíkur í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik hafa heldur betur byrjað tímabilið af krafti og þó þær séu nýliðar í deildinni bera þær þess ekki merki. Njarðvík hefur unnið fyrstu þrjá leikina í Subway-deild kvenna, gegn Haukum, Fjölni og Grindavík, og eru til alls líklegar. Vilborg Jónsdóttir er ein af ungu og efnilegu leikmönnum liðsins og fyrirliði þess. Hún svaraði nokkrum laufléttum spurningum Víkurfrétta.

Nafn: Vilborg Jónsdóttir
Aldur: 18 ára
Treyja númer: 6
Staða á vellinum: Ás eða leikstjórnandi
Mottó: You win some, you lose some og áfram gakk


Hefurðu fasta rútínu á leikdegi? 

„Nei, er kannski ekki með einhverja sömu rútínu. Fer eiginlega allt eftir því klukkan hvað leikurinn er en ég borða alltaf hafragraut með eplum í morgunmat og síðan er ég mætt upp í hús u.þ.b. tveimur klukkutímum fyrir leikinn.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvenær byrjaðir þú í körfu og af hverju valdirðu körfubolta?

„Ég byrjaði í körfubolta þegar ég var sex ára og það aðallega af því að allar vinkonurnar voru í körfu en svo æfði líka eldri bróðir minn körfubolta þá.“

Hver er besti körfuboltamaður allra tíma?

„Myndi segja Kobe Bryant.“

Hver er þín helsta fyrirmynd?

„Mamma hefur alltaf verið mín stærsta fyrirmynd og konan sem ég vil líkjast sem mest í framtíðinni en þegar það kemur að körfubolta þá horfi ég líklegast mest upp til Brenton Birmingham og Loga Gunnarssonar.“

Hvert er eftirminnilegasta atvikið á ferlinum?

„Að landa öðru sætinu á Norðurlandamótinu með U-18.“

Hver er besti samherjinn? 

„Ég get ekki sleppt því að segja Helena Rafnsdóttir af því að við höfum spilað alla okkar körfuboltaleiki saman síðan í fyrsta bekk en svo var líka mjög lærdómsríkt að spila með Chelsea Jennings á síðasta tímabili.“

Vilborgu finnst Helena Rafnsdóttir vera besti samherjinn enda hafa þær spilað lengi saman.

Hver er erfiðasti andstæðingurinn?

„Ég myndi segja að Ariel Hearn í Fjölni hefur verið erfiðasti andstæðingurinn.“

Hver eru markmið þín á þessu tímabili? 

„Markmið mín á þessu tímabili er að halda áfram að bæta upp sóknarleikinn minn og skotið.“

Hvert stefnir þú sem íþróttamaður? 

„Ég stefni út í háskóla í Bandaríkjunum.“

Hvernig væri fimm manna úrvalslið þitt skipað með þér?

„Ég myndi henda í ungt lið held ég: Elísabeth Ýr Ægisdóttir (Haukar), Helena Rafnsdóttir (Njarðvík), Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir (Fjölnir) og Lára Ösp Ásgeirsdóttir (Njarðvík).“

Fjölskylda/maki:

„Ég á stóra samsetta fjölskyldu og sex systkini í heildina.“

Hvert er þitt helsta afrek fyrir utan körfuboltann? 

„Ég myndi segja að það væri að ég sé að klára framhaldsskólann á tveimur og hálfu ári.“

Áttu þér áhugamál fyrir utan körfuboltann? 

„Já, mér finnst mjög gaman að lyfta og hlaupa lengri hlaup. Síðan segir mamma að ég eigi mér sérstakt áhugamál, að panta mér föt af netinu.“

Ef þú ætlar að gera vel við þig, hvað gerirðu?

„Ég myndi örugglega bara sofa út til tilbreytingar og síðan myndi ég fá mér eitthvað gott að borða.“

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

„Folaldalund með rjómasósu.“

Ertu öflug í eldhúsinu?

„Já, ég myndi segja að ég væri nokkuð liðtæk.“

Býrðu yfir leyndum hæfileika?

„Já, það kom mér að óvart hvað ég er góð á saumavélinni.“

Er eitthvað sem fer í taugarnar á þér?

„Óstundvísi er óþolandi og fólk sem labbar hægt.“