Þjálfaraskipti í fótboltanum
Suðurnesjaliðin Reynir og Þróttur hafa ráðið nýja þjálfara en liðunum hefur ekki gengið sem skildi í sínum deildum í ár. Bæði lið eru á botni sinna deilda, Þróttur situr neðst í Lengjudeild karla og Reynir er á botni 2. deildar.
Allt er þegar þrennt er
Knattspyrnudeild Þróttar hefur samið við Brynjar Gestsson um að stýra liðinu út þetta tímabil og næsta. Brynjar er ekki ókunnur aðstæðum hjá Þrótti en hann stýrði liðinu upp úr 3. deild árið 2017, tók við Þrótti aftur fyrir tímabilið 2020 og hefur stýrt liðinu ásamt Gunnari Helgasyni frá því að Eiði Ben Eiríkssyni var vikið úr þjálfarasæti Þróttar fyrr á þessu tímabili.
Marteinn Ægisson, framkvæmdastjóri Þróttar, sagði í viðtali við vefmiðilinn Fótbolti.net í gær að félagið hafi tekið þá ákvörðun að ráða Brynjar sem aðalþjálfara út næsta ár og hafi leikmönnum verið tilkynnt það eftir fyrsta leik í landsleikjahléi. „Við erum að horfa lengra en eitt tímabil og ætlum okkur að byggja upp gott lið á þeim gildum sem hafa komið félaginu á þann stað sem það er á í dag. Binni þekkir félagið vel, var í kringum okkur í úrslitakeppninni 2014, kom liðinu upp í 2. deild 2017, tók aftur við liðinu haustið 2019. Það eru spennandi tímar í vændum. Núna er ekkert annað í stöðunni en að snúa bökum saman og sækja til sigurs í næstu leikjum," sagði Marteinn.
Reynismenn gera breytingar
Luka Jagačić og stjórn knattspyrnudeildar Reynis hafa komist að samkomulagi um starfslok Luka hjá félaginu en Reynir hefur gengið frá samningi við Bjarka Má Árnason um að taka við þjálfun liðsins. Bjarki Már kemur frá Kormáki/Hvöt og lék einn leik með þeim í 3. deild í sumar.
„Við óskum Luka velfarnaðar í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni. Því miður gekk þetta tiltekna verkefni ekki sem skyldi. Hann er flottur þjálfari og frábær manneskja,“ sagði Sigursveinn Bjarni Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Reynis, og bætti við: „Við bindum miklar vonir við Bjarka Má og bjóðum hann hjartanlega velkominn í klúbbinn.“
Þá hafa þrír nýir leikmenn bæst í hóp Reynismanna, Jose Javier Ros Ruiz, 23 ára vængmaður, kemur frá Club Deportivo Cieza á Spáni, Hörður Sveinsson hefur snúið aftur stutta dvöl hjá Njarðvík og þá hefur Jón Arnór Sverrisson gengið til liðs við Reynismenn úr RB. Hörður og Jón Arnór eru orðnir löglegir með Reyni en Ruiz verður orðinn löglegur í næstu umferð.
Reynir tekur á móti Víkingi Ólafsvík á Blue-vellinum í kvöld og má búast við hörkuleik þessara tveggja liða en Reynir situr á botni deildarinnar með þrjú stig á meðan Víkingar eru tveimur sætum fyrir ofan þá með fimm stig.