Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Þjálfararnir um bikardráttinn
Fimmtudagur 26. janúar 2006 kl. 15:14

Þjálfararnir um bikardráttinn

Dregið var í undanúrslit í Bikarkeppni KKÍ og Lýsingar í dag, dregið var bæði í karla – og kvennaflokki en undanúrslitaleikirnir fara fram 4. og 5. febrúar.

Víkurfréttir slógu á þráðinn til allra þjálfara Suðurnesjaliðanna og tóku púlsinn á þeim varðandi hvað þeim fyndist um leikina í undanúrslitunum.

Karlar:
Keflavík – Njarðvík
Grindavík – Skallagrímur

Konur:
Keflavík – Grindavík
ÍS - Breiðablik

Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur.
„Mér líst vel á leikinn gegn Njarðvík, það verður boðið upp á nánast allt sem íslenskur körfubolti hefur upp á að bjóða í þessum leik. Það er sterkt að fá heimaleik og þú getur spurt hvern sem er, hann hefði svarað því að hann vildi heimaleik. Öll liðin í pottinum í dag voru hörkugóð og fjórir sterkustu heimavellirnir á landinu í dag voru í pottinum.“

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga.
„Ég hefði reyndar viljað heimaleik því við höfum ekki fengið heimaleik í bikarnum síðan í janúar 2004. Það er gaman að hafa fengið Keflavík og við ætlum okkur í leikinn til þess að vinna.”

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindvíkinga.
„Þetta eru allt saman topplið sem mætast, eins og þetta hefur spilast í vetur þá hefðu þetta allt verið gríðarlega erfiðir leikir í undanúrslitum bikarsins. Maður óskaði þess helst að fá heimavöll en auðvitað vilja öll liðin fá heimavöll þegar fjögur topplið eru í pottinum. Það sem skiptir máli er að fara í þennan einstaka leik og spila hann af krafti og það er eins gott að menn séu stilltir inn á leikinn þegar á reynir.”

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkurkvenna.
„Ég er ánægður að fá Grindavík heima, ef við ætluðum alla leið þá hefðum við alltaf þurft að fara í gegnum Grindavík og nú er kominn tími á að við sýnum hvað í okkur býr. Við erum með hugmyndir að því hvernig við vinnum Grindavík og við mætum með sterkt lið til leiks og ætlum að spila góða vörn á Jericu Watson.“

Unndór Sigurðsson, þjálfari Grindavíkurkvenna.
„Það er alveg sama hvaða lið maður fær í bikarnum, þetta er spurning um dagsformið þó auðvitað hefði Breiðablik verið léttasti kosturinn. Það hefði ekki verið verra að fá heimavöll en það er stutt að fara fyrir stuðningsmenn okkar og skemmst að minnast þeirrar stemmningar sem var í viðureign liðanna síðast þegar þau mættust í Sláturhúsinu. Það lið sem spilar betri vörn í bikarleiknum fer í Höllina.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024