Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Þetta eru Óskarsverðlaun körfuboltamanna - segir Tómas Tómasson
Mánudagur 22. ágúst 2011 kl. 15:02

Þetta eru Óskarsverðlaun körfuboltamanna - segir Tómas Tómasson

„Ég kynntist honum á þeim tíma þegar hann var hjá Chicago Bulls og ég fór þangað til að fylgjast með undirbúningstímabilinu og öðru slíku. Svo fékk ég hann til að koma hingað til lands og vera með þjálfarafyrirlestur árið 2004-2005, við höfum svo haldið sambandi síðan,“ segir Keflvíkingurinn Tómas Tómasson sem nýlega var viðstaddur athöfn þegar bandarískir körfuboltamenn heiðra leikmenn og aðra tengda körfuboltanum fyrir afrek sín á ferlinum. Að því tilefni eru menn vígðir inn í frægðarhöllina svokölluðu (Hall Of Fame). Tómas var þar gestur þjálfarans Tex Winter sem m.a fann upp hina frægu þríhyrnings-sókn sem Phil Jackson hefur gert ódauðlega en Tómas hefur verið umboðsmaður körfuboltamanna og staðið fyrir námskeiðum og öðru tengdu íþróttinni.

Tex Winter þessi hefur fengist við þjálfun síðan árið 1951 og var m.a. aðstoðarþjálfari Phil Jackson hjá bæði Chigago og Lakers. Tómas segir það vissulega hafa komið sér á óvart að sér hafi verið boðið en aðeins nokkrir útvaldir gestir máttu koma í boði Tex. „Ég átti alls ekki von á því að mér yrði boðið. Kallinn hefur hins vegar alltaf verið velviljaður og reynst mér vel. Hann kom m.a. hingað til lands á sínum tíma og oftar en ekki hafa svona virtir þjálfarar vissar kröfur og vilja að hlutirnir séu á vissan hátt þegar þeir halda svona fyrirlestur eða námskeið. Tex Winter tók hins vegar enga þóknun fyrir, hann flaug ekki á fyrsta farrými og hann vildi heldur aldrei fá tvær máltíðir, heldur vildi hann skipta einni máltíð milli sín og konunnar sinnar. Þetta er bara alger öðlingur. Hann er af gamla skólnanum sem maður óskaði að fleiri væru af. Það er ekki til egó í þessum manni.“

Athöfnin sem tekur þrjá daga fer fram í Sprinfield, Massachusetts og þangað mæta all flestir sem nokkurn tímann hafa verið vígðir inn í frægðarhöllina. „Maður hitti mikið af þessum stjörnum en gestirnir gista aðeins á tveimur hótelum í bænum og því rekst maður á alla þessa kalla. Ég hitti til dæmis David Stern framkvæmdarstjóra NBA og spjallaði við hann, svo hitti maður Dr. J og Barkley og marga aðra.“ Tómas segir þetta vera mikla upplifun að fara á svona athöfn en hann myndi ekki nenna þessu á hverju ári. Hann segir Bandaríkjamenn vera sérfræðinga í því að gera hlutina væmna og dramatíska. „Þetta getur verið soldið yfirgegnilegt og þeir ná að gera 10 mínútna athöfn að einhverju þriggja tíma dæmi. Þetta stóð yfir í þrjá daga og síðasta daginn þá hreinlega nennti ég þessu ekki,“ en aðal athöfnin er á föstudeginum. Tómas sat þar á öðrum bekk og segir þetta hafa verið hálf súreallískt enda umvafinn mörgum goðsögnum úr NBA deildinni. „Maður lítur aftur fyrir sig og þar situr Charles Barkley ásamt fleirum goðsögnum og þetta er bara hálf kjánalegt,“ en Tómas spjallaði við flesta þessa kappa sem voru á svæðinu.

„Ræðan hjá Dennis Rodman var svakaleg og breyttist í eitthvert fjölskyldu drama þar sem hann sendi móður sinni tóninn, hann er soddan ægileg tilfinningavera kallinn. Hann er mjög skrítinn náungi, þegar þú talar við hann einn á einn þá virkar hann bara feiminn og hann er mjög viðkunnalegur. En um leið og það eru komnar myndavélar og míkrófónar á svæðið þá umturnast hann og verður allt annar.

Þetta var auðvitað mjög gaman og ég hafði mest gaman af því að hitta Tex. Ég hef ekki hitt hann lengi en hann fékk heilablóðfall fyrir tveimur árum og hefur átt erfitt með tal síðan þá, hann er líka að verða 90 ára á þessu ári. Ég hef verið í tölvupóstsambandi við hann og hann sendi mér póst og spurði hvort ég hefði áhuga á því að mæta. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um og maður hefur lent í miklu verri boðum en þessu. Maður er auðvitað körfuboltaáhugamaður og þetta eru okkar Óskarsverðlaun ,“ sagði Tómas Tómasson að lokum.

Myndir af netinu: Á efri mynd má sjá Tómas með Tex Winter og á neðri myndinni má sjá glitta í Tómas lengst til vinstri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024