Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Þarna er jú vagga körfuboltans
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 29. janúar 2021 kl. 07:07

Þarna er jú vagga körfuboltans

Einn af máttarstólpum úrvalsdeildarliðs Keflvíkinga í körfubolta, Axel Nikulásson, er nú á förum til Bandaríkjanna þar sem hann mun leika körfubolta samfara námi í háskóla næsta vetur. Axel lék mjög vel sl. vetur og er orðinn fastur maður í landsliðinu og staðið sig mjög vel í leikjum þess.  Kom því ekkert á óvart að leið hans ætti eftir að liggja til Bandaríkjanna, vöggu körfuboltans, þar sem hann mun reyna fyrir sér hjá háskólaliði. Til að fá nánari vitneskju um gang mála hjá Axel, fengum við hann í viðtal og spurðum hann fyrst, hvað hefði komið tll að hann væri nú á leið til Bandaríkjanna.

„Það var sl. vor eftir síðasta leikinn í Norðurlandamótinu, að James Dooley, landsliðsþjálfari, kom til mín og spurði hvort ég hefði áhuga á að komast til Bandaríkjanna til að leika körfubolta. Hann sagðist þekkja menn sem gætu komið því til leiðar að ég gæti fengið skólapláss. Nú, því er ekki að neita, að ég var dálítið hikandi, en svaraði honum á þá leið, að þar sem þetta hefði lengi verið draumur hjá mér, þá hefði ég vissulega áhuga á að komast út. Að nokkrum vikum liðnum hringdi ég í hann til Bandaríkjanna og sagði hann mér þá að þetta væri allt að smella saman. Síðan hefur þetta gengið jafnt og þétt og fyrir nokkrum dögum fékk ég síðustu plöggin fyrir skólann og mun halda út rétt fyrir næstu mánaðamót. Skólinn heitir Stroudsburg Univercity og er í Stroudsburg í Pensilvaníu.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þú munt þurfa að sækja eitthvert nám samfara körfuboltaiðkun?

„Ég verð að sækja ákveðna tíma og ná ákveðnum prófum til að geta fengið að halda áfram. Ef maður nær ekki prófum, þá fær maður ekki að æfa. Að vísu þekkist í stærri skólunum, að þegar menn eru orðnir mjög góðir þá sleppa þeir við að læra og eru þá einungis látnir einbeita sér að íþróttinni.“

Ekki alls fyrir löngu kom upp sá orðrómur að banna ætti alla íslenska leikmenn í Bandaríkjunum út af banni sem sett var á Bandaríkjamenn hér?

„Þetta er bull og endaleysa og furðulegt að nokkrum manni skuli detta slík vitleysa í hug. Þessi orðrómur komst af stað af Íslendingi einum sem staddur var úti og hafði hitt einhvern Bandaríkjamann sem ekki var á eitt sáttur við þetta bann hér, og sagði við það tækifæri, að úr því að engir Bandaríkjamenn fengju að leika á Íslandi yrði sett bann á alla Islendingaá móti. Heyrst hefur að þjálfari hér á landi hafi komið þessum orðrómi af stað.

Ekki veit ég í hvaða tilgangi.

Hvernig líst þér á komandi körfuboltavertíð á Íslandi án erlendra leikmanna?

„Ég held að körfuboltinn verði ekki eins litríkur og þar af leiðandi ekki eins sterkur. Spenna gæti þó orðið mikil og víst er að þeir sem hafa vermt varamannabekkina í liðunum, munu nú fá tækifæri og því miklar líkur að margir „minni spámennirnir“ muni láta Ijós sitt skína. Ég verð þó að taka undir orð eins vinar míns, sem sagði er hann frétti að banna ætti erlendu leikmennina, að  yrði eins og að skipta yfir úr litasjónvarpi í svart-hvítt.“

Heldur þú að Keflavíkurliðið eigi eftir að spjara sig?

„Já, ég er ekki í nokkrum vafa um. Ég er viss um að Brad Miley á eftir að ná því besta úr hverjum og einum leikmanni liðsins og kvíði þar af leiðandi ekki komandi keppnistímabili, enda ástæðulaust. Í liðinu eru margir ungir strákar og mjög efnilegir, sem fara nú að fá sitt tækifæri, og ætti að verða mjög gaman að fylgjast með þeim í hinni hörðu baráttu í úrvalsdeildinni. Ég vil bara óska Keflvíkingum alls hins besta á komandi vetri.“

Draumur margra íþróttamanna er að komast í atvinnumennsku. Telurðu þig eiga elnhverja möguleika þar?

„Áður en nokkur maður verður atvinnumaður í Bandaríkjunum verður hann að hafa leikið þar áður. Möguleikar mínir eru hverfandi og baráttan um hvert sæti í atvinnumannaliðunum er gífurleg. Gott dæmi um það er Pétur Guðmundsson, sem ætti að hafa alla burði til komast í NBA, en hefur þó ekki gengið sem skyldi hjá honum. Þessi ferð mín er heldur ekki farin í þeim tilgangi að komast í atvinnumennskuna. Í Bandaríkjunum er vagga körfuboltans og hann gerist hvergi betri, og því tel ég mig geta lært mikið á minni dvöl þarna,“ sagði Axel Nikulásson að lokum. - pket.

VF.is birtir eldra efni af síðum Víkurfrétta sem fögnuðu nýlega 40 ára útgáfuafmæli. Meðfylgjandi grein birtist 18. ágúst 1983.

Axel Nikulásson í Íþróttahúsi Keflavíkur í leik með Keflavík gegn Fram í Úrvalsdeildinni í körfubolta. VF-mynd/pket.