Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Þakklát fyrir tíma minn hjá Keflavík
Pálína Gunnlaugsdóttir var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar í Domino's deild kvenna. Hún vann þrennuna með Keflavík á síðustu leiktíð og leitar nú af nýrri áskorun.
Fimmtudagur 13. júní 2013 kl. 12:07

Þakklát fyrir tíma minn hjá Keflavík

- Pálína Gunnlaugsdóttir leikur með Grindavík á næstu leiktíð

Pálína María Gunnlaugsdóttir hefur söðlað um og mun leika með Grindavík á næstu leiktíð..

- Pálína Gunnlaugsdóttir leikur með Grindavík á næstu leiktíð

Pálína María Gunnlaugsdóttir hefur söðlað um og mun leika með Grindavík á næstu leiktíð í Domino’s deild kvenna í körfuknattleik. Pálína stóð sig frábærlega á síðustu leiktíð með Keflavík en liðið vann alla þá titla sem í boði voru í kvennaflokki. Liðið varð deildar-, bikar- og Íslandmeistari. Pálína var valin besti leikmaður úrslitakeppninnar og er mikill hvalreki fyrir Grindavíkurliðið sem hafnaði í 6. sæti í Domino’s deildinni á síðustu leiktíð.

„Mér lýst vel á að leika með Grindavík,“ segir Pálína sem samdi við félagið til næstu tveggja ára. „Ég hef verið hjá Keflavík í sex ár og toppaði sjálfa mig á síðustu leiktíð. Ég er afar sátt með tíma minn hjá Keflavík. Ég þurfti kannski örlítið nýja áskorun á þessum tímapunkti eftir frábært tímabil.“

Ljóst er að lið Grindavíkur ætlar sér stóra hluti á næstu leiktíð. Jón Halldór Eðvarðsson hefur tekið við þjálfun liðsins en hann náði frábærum árangri með kvennalið Keflavíkur á sínum tíma. Pálína segir það hafa spila stóran þátt í ákvörðun sinni að Jón Halldór hafi tekið við Grindavíkurliðinu.

„Jonni er bílasali og getur auðvitað selt manni allan andskotann,“ segir Pálína og hlær. „Auðvitað hafði það áhrif að hann hafi tekið við Grindavíkurliðinu. Við Jonni erum góðir vinir og hann þekkir mig gríðarlega vel. Það er áskorun fyrir mig að fara til Grindavíkur en ég finn að það er mikill metnaður hjá félaginu. Grindavík hefur orðið Íslandsmeistari síðustu tvö tímabil í karlaflokki og stefnan er sett á að ná betri árangri í kvennaflokki.“

Pálína viðurkennir að hún kveðji Keflavík með söknuði. „Jú, vissulega. Ég er búin að vera lengi hjá félaginu. Keflavík er öðruvísi klúbbur en aðrir sem ég hef verið hjá. Það snýst allt um körfubolta í bæjarfélaginu og í sannleika sagt þá er hjartað á mér orðið svolítið blátt eftir þessi sex ár. Mér leið mjög vel hjá Keflavík og er mjög þakklát fyrir tíma minn hjá félaginu.“ 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024