Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 14. febrúar 2002 kl. 15:18

Þakkir frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Fátt gleður hjartað meir en góðar gjafir, nema ef skyldi vera sá hugur sem fylgir. Þannig innbrjósts var okkur öllum er við tókum á móti góðum gjöfum og óskum í tengslum við opnun D-álmunnar. Ég held reyndar að allir hafi verið í hátíðaskapi, jafnt skyldir sem óskyldir á þessum degi sem markaði hér tímamót.Sú framtíðarsýn sem opnaðist við tilkomu þessarar byggingar, er afsprengi vonar og langrar baráttu sem háð hefur verið allt síðan í lok sjöunda áratugarins. Við sem starfað höfum hér innan veggja hússins höfum oft upplifað vinda sem bæði blása frá austri og vestri. Þannig hafa stormarnir stundum verið svo hvassir að þeir hafa haft tilhneigingu til að feykja burtu þeirri von sem menn báru innan með sér um uppbyggingu starfsemi innan þessara veggja. Nándin við Stór-Reykjavíkursvæðið er bæði til góðs og ills, allt eftir því hvernig menn líta á tilveru sína. Ætli menn að byggja upp starfsemi sem heilbrigðisþjónustu, þá verður hún ætíð í samkeppni við það besta sem gerist innan seilingar. Þegar vindar hafa verið sem hvassastir höfum við gjarnan fengið að vita að það breytti litlu hvort við værum eða værum ekki. Þessi fámenni hópur sem hér hefur samt haldið áfram í þeirri trú að við ættum framtíð fyrir okkur hefur ekki viljað hokra eða gefast upp, heldur reynt að snúa bökum saman og fremur litið hvassviðrið sem hvatningu til þess að gera betur. Nú er svo komið að innan veggja hússins er einvalalið, bæði innan heilsugæslunnar og sjúkrahússviðsins. Sérfræðiþörfum hefur aldrei verið betur sinnt og og heilsugæslan sýnir metnað í öllum sínum störfum. Heimahjúkrunin er í nánu sambandi við sjúkradeildina og eru aðstæður skjólstæðinga úti í bæ rædd vikulega á sameiginlegum fundum. Menn sjá D-álmuna sem dyr að markvissari og betri framtíð innan heilbrigðisþjónustunnar á svæðinu. Það þarf ekki að tíunda að öll aðstaða hefur breyst stórkostlega, þá sérstaklega með tilkomu nýrrar rannsóknareiningar, sjúkraþjálfunar og iðjuþjálfunar og nú höfum við í fyrsta skipti fengið aðstæður til að taka á móti fjölmennari hópum sem vilja koma og hitta okkur á sameiginlegum fundum. Þetta er hér tíundað vegna þeirrar staðreyndar að á meðan vindar voru sem hvassastir, þá gátum við samt skynjað velvild fólksins í kring um okkur og þann hug sem það hafði gagnvart þessu húsi.
Húsið, eða fyrirtækið eins og undirritaður gjarnan vill kalla það er jú nálægt íbúunum hér á Suðurnesjum og ekkert athugavert við það þótt þeir hafi skoðun á starfseminni. Við fáum vissulega af og til kvartanir vegna einhverns tilviks eins og verða vill þegar maður mætir manni og sitt sýnist hverjum. En þær neikvæðu raddir sem hér heyrðust háværar á þeim tíma sem undirritaður hóf hér starfsemi hafa nú þagnað og hin neikvæðu skrif í staðarblöðum horfið. Enda féll sú íþróttagrein nánast um sjálfa sig og var orðin fremur einsleit og bundin við þennan landsfjórðung. Ég held reyndar að sú staðreynd hafi opnast augum fólksins að Heilbrigðisstofnun er hluti af þjónustu samfélagsins og menningu þess og að slíkri stofnun þarf að hlúa, ekki aðeins í verki, heldur einnig með orðum. Það er tiltölulega auðvelt að eyða undirstöðum, bæði í húsum og hjá mannfólkinu, en með samtakamætti og jákvæðri tilfinningu gagnvart eigin stofnun sem Heilbrigðisstofnunin er, má byggja upp .
Nýir boðaðir pólitískir straumar hér í umhverfinu munu leggja áherslu á fjölskyldumál, menntamál og menningarmál. Það er töluvert breytt viðhorf á þessu svæði miðað við það sem áður hefur tíðkast. Við sjáum nú háskólaborgara spranga hér á götum og við vitum af þeim hér í þessu húsi. Slíkt er mikil upplyfting fyrir þetta bæjarfélag og fyrir þá stefnu sem hér mun ríkja í framtíðinni. Háskólaumhverfi hefur þannig gerbreytt Akureyrarbæ og það er engin ástæða til þess að svo geti ekki einnig orðið hér. Suðurnesjamenn hafa lagt mikla áherslu á efnishyggju fram að þessu og jólaljósin hafa hér verið skærari heldur en á flestum öðrum stöðum á landinu, jeppar stærri og svo mætti lengi telja. Hins vegar skynjar maður ákveðna hugarfarsbreytingu þar sem annað verðmætamat er farið að hafa meiri þunga. Fjölskyldan, umhverfið og menntunin er nú sett í fyrirrúmi.
Þetta er jú skæðasta vopnið gegn þeirri vá sem ný og sterkari vímuefni hafa í för með sér. Hvernig tengjast þessar hugleiðingar nýju skurðarborði? Jú á þann hátt að skurðarborðið og aðrar góðar gjafir eru tákn þess að við þurfum að standa saman og hlúa að umhverfi okkar. Það var gert með þessum gjöfum og ber hún vott um það að menn vilja stofnuninni vel og framtíð hennar sem mesta. Við sem innan veggjanna störfum sjáum hana eflast. Við viljum í æ meira mæli sjá tvöföldun
Reykjanesbrautarinnar tákna að leiðir liggja í báðar áttir, þannig að við getum verið hluti af uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Við höfum nú náð ákveðnum áfanga, en viljum gjarnan sjá að haldið sé áfram. Í þessu felst að hlúð verði að því skurðrými sem við höfum til ráðstöfunnar. Núverandi aðstaða er mjög bágborin, þar sem ein sæmileg skurðstofa þjónar okkur með viðhangandi uppvöknun. Engin aðstaða er til móttöku sjúklinga, sem oft húka á göngum. Börn sem eru að koma til aðgerðar mæta börnum sem eru að koma úr aðgerð, sem ekki getur talist jákvæð aðstaða þegar á öllu er á botninn hvolft. Þannig eru gjafirnar hvatning til okkar um að halda starfinu áfram fram á við og upp á við. Um leið og við færum fólkinu í kring um okkur bestu þakkir fyrir hlýhug og góðar gjafir, þá hvetjum við alla til að flykkjast undir eigin fána og fylgja góðum málefnum eftir.


Með alúðarþökk og virðingu,

Konráð Lúðvíksson, yfirlæknir
Sjúkrasvið H.S.S.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024