Það verður áskorun fyrir mig að sýna úr hverju ég er gerður
– segir Sindri Kristinn Ólafsson sem hefur gert þriggja ára samning við knattspyrnudeild FH.
Sindri Kristinn Ólafsson, aðalmarkvörður meistaraflokks Keflavíkur síðustu ára, er uppalinn hjá Keflavík og hefur aldrei leikið annars staðar. Hann hefur nú skrifað undir samning við FH um að leika með þeim næstu þrjú tímabil og segir ástæðu hans þá að hann sé að stíga skref í að þroska sig sem leikmann. Víkurfréttir heyrðu í Sindra nú í morgun og spurðu hann út í vistaskiptin.
Hvernig líður þér með þessa ákvörðun?
„Mér líður vel með hana núna en er búinn að eiga svolítið erfitt með að átta mig á aðstæðum en ég held, þegar maður á eftir að líta til baka, að þetta sé rétt ákvörðun,“ segir Sindri sem hefur spilað alla tíð fyrir Keflavík.
„Ég gaf mér góðan tíma í þessa ákvörðun,. Ég ákvað í upphafi, frá því að ég vissi að ég væri að renna út á samning og Keflavík og fleiri lið fóru að sýna mér áhuga, að ég ætlaði að taka mér minn tíma. Ég ætlaði ekki taka neina fljótfærnisákvörðun út frá því að eitthvað liti spennandi út á því augnabliki heldur tók ég minn tíma í þetta frá upphafi. Lagði upp kosti og galla allra þeirra liða sem ég gat mögulega gengið til liðs við og reyndi að sjá fyrir mér framtíðarmöguleikana þar. Þannig að ég tók meðvitaða ákvörðun og gaf mér tíma í allar ákvarðanir.“
Voru þetta allt lið hérna heima eða voru einhver erlend lið inni í myndinni?
„Þetta voru allt lið hérna heima, ekkert erlent lið inni í myndinni – alla vega að þessu sinni.“
Hvaða kosti sérðu fyrir þér við það að skipta á þessum tímapunkti?
„Eins og ég hef sagt áður við þig þá hef ég getað farið frá Keflavík áður, þá til erlends liðs. Menn hafa sagt að ég hefði átt að grípa tækifærið og fara í atvinnumennsku þegar það bauðst en þótt hinir og þessir væru að segja mér að stökkva á það þá hafði ég svo sterka tilfinningu að ég vildi taka þátt í þeirri uppbyggingu sem var í gangi og ég hefði verið að skilja við Keflavík á vondum tíma. Núna finnst mér ég vera að skilja við liðið á mínum forsendum og mér finnst klúbburinn vera á góðum stað. Mér finnst Keflavík vera í góðri stöðu núna og það spilaði stóran þátt í þessari ákvörðun að mér finnst ég ekki vera að skilja klúbbinn eftir á slæmum stað.“
Sindri segir að það undri sig kannski margir að FH hafi orðið fyrir valinu og hefur jafnvel verið sagt að hann sé að taka skref niður á við þar sem FH endaði neðar en Keflavík í sumar.
„Ég er mjög ósammála því. FH er risastórt lið með mikla sögu og sigursælasta liðið á Íslandi á þessari öld. FH ætlar sér stóra hluti sem mér fannst spennandi og mögulega þyrfti ég nýja áskorun. Það var kannski ástæðan fyrir þeirri ákvörðun að ég valdi FH.“
Sindri segist þurfa að standa eða falla með þessari ákvörðun og mögulega verði þetta heillaskref fyrir hann. „Nú er spurning hvort ég nái að þroska minn leik með nýjum þjálfurum og bæta mig mögulega. Ég er náttúrlega að fara í nýtt umhverfi þar sem ég þekki ekki alla innviði. Ég þekki hvern krók og kima í Keflavík og mögulega ... ég er ekki að segja að ég hafi verið vafinn í neinn bómumm, ég hef alveg þurft að „performa“ sem leikmaður í Keflavík. Núna er ég að fara þangað sem kröfurnar eru miklar, sérstaklega þar sem ég er utanaðkomandi leikmaður, og það verður áskorun fyrir mig og minn feril að sýna úr hverju ég er gerður. Í gegnum tíðana hafa margir afbragðsleikmenn Keflavíkur ekki getað staðið sig með öðrum liðum en mig langar að sýna að ég geti það.“
Frábær upplifun
„Það var frábær upplifun að fá að vera í kringum A landsliðið og alla þá umgjörð sem er þar í kring – að fá að hita upp fyrir frama þrjátíu þúsund manns, vera í kringum liðið og fá að sýna sig fyrir A landsliðsþjálfaranum,“ segir Sindri Kristinn en Arnar Viðarsson valdi hann til þátttöku í æfingaleikjum A landsliðs Íslands fyrr í þessum mánuði, gegn Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu.
„Maður er kominn inn í mengið núna, þótt maður sé kannski ekki meðal fimm, sex efstu markvarða landsins þá á maður ekki að útiloka neitt. Ég er rosalega stoltur af því að hafa verið í Keflavík þegar ég var valinn, að hafa ekki þurft að fara í neitt annað lið til þess að vera valinn í landslið því það er búinn að vera draumur minn að komast í A landslið – að hafa náð því í Keflavík er mér rosalega mikils virði.“
Sindri segir auðvitað að hefði viljað fá leik með liðinu en hann sat á bekknum í báðum leikjunum. „Ég reiknaði svo sem ekkert með því þegar ég fór í þetta verkefni, það var bara heiður að fá að fara og vera til taks. Fá að æfa með öllum þessum gæðaleikmönnum og þjálfurum. Arnar Viðars sýndi mér alveg úr hverju hann er gerður, þvílíkur þjálfari sem gerir allt fyrir land og þjóð. Hann hefur náttúrlega fengið sína gagnrýni, kannski óréttláta því þetta er frábær þjálfari sem leggur sig allan fram og þvílíkur öðlingur sem hann er.“
Þetta þroskaskref þitt, að skipta yfir í FH, það er náttúrlega bara gert til að ganga í augun á landsliðsþjálfaranum er það ekki?
Sindri skellir upp úr: „Já, hann er auðvitað FH-ingur!“
Erfið ákvörðun
„Þetta var mér erfið ákvörðun. Keflavík er félagið mitt og er mér rosalega kært. Ég hef lagt mig allan fram og gert allt fyrir félagið, sama hvort það tengist innviðum þess eða öðru. Það er erfitt að skilja við Keflavík en ég vona innilega að ég eigi afturkvæmt í Keflavík og mun styðja Keflavík í öllu sem það tekur sér fyrir hendur – nema náttúrlega þegar ég mæti þeim.
Ég held áfram með Keflavík og verð á öllum körfuboltaleikjum og verð vonandi ennþá velkominn í Reykjaneshöll og á Sunnubrautina því að ég er ennþá félagsmaður og mun alltaf vera það. Þetta er erfitt en ég vona að Keflvíkingar virði þessa ákvörðun og ég muni áfram eiga mína vini í Keflavík,“ sagði Sindri Kristinn að lokum.