Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Það skiptir miklu máli að fólk sé að vakna og hreyfa sig
Þriðjudagur 3. október 2017 kl. 07:00

Það skiptir miklu máli að fólk sé að vakna og hreyfa sig

- segir einkaþjálfarinn Freyja Sigurðardóttir

Freyju Sigurðardóttur þarf vart að kynna fyrir Suðurnesjabúum en hún hefur verið á kafi í íþróttum og líkamsrækt frá unga aldri. Freyja hefur meðal annars keppt í Fitness með góðum árangri og heldur einnig úti námskeiðum fyrir konur á öllum aldri sem heita „Þitt Form“. Námskeiðin hennar njóta mikilla vinsælda og slegist er um að komast að hjá henni þegar ný námskeið eru auglýst. Við hittum Freyju í Sporthúsinu í tilefni af Heilsu- og forvarnarvikunni og töluðum við hana um líkamsrækt og fleira.

Númer hvað er þetta námskeið í „Þitt Form“?
„Þetta er námskeið númer 34. Við tökum alltaf hlé um jólin og á sumrin. Þannig að þetta er búið að ganga ótrúlega vel.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig hefur þátttakan verið í gegnum árin?
„Hún hefur verið ótrúlega góð. Það hefur verið fullt á öll námskeið frá því ég byrjaði og námskeiðin eru fyrir konur. Það eru 45 þátttakendur á hverju námskeiði og þrjú námskeið í gangi í einu.“

Hvað telur þú vera lykilinn að svona góðri þátttöku á hverju námskeiði?
„Lykillinn er gleði. Það er ótrúlega gaman að koma hérna inn og sjá konur á öllum aldri, þær eru frá 16 ára upp í 64 ára og allar koma hingað til þess að taka á því, hafa gaman og bara njóta.“

Er erfitt að fá konur í ræktina eða til þess að hreyfa sig?
„Ég hélt það væri erfiðara en konur eru duglegar að tala sín á milli og þetta er því fljótt að spyrjast út. Þessi salur sem við erum í er líka góður, hér eru engir gluggar og enginn að fylgjast með okkur. Þær sem eru feimnar fá bara að vera í sínu „prívati“ án þess að einhver sé að fylgjast með þeim.“

Hver er lykillinn að góðri heilsu að þínu mati?
„Númer eitt, tvö og þrjú er hvíld, næring og að hreyfa sig. Í dag er mikið um tölvur, kyrrsetuvinnu og fleira. Það skiptir miklu máli að fólk sé að vakna og hreyfa sig því gigt og fleiri sjúkdómar eru oft eitthvað sem við erum bara að búa til sjálf. Það er fljótt að spyrjast út hvað fólk er að gera, fólk sem er að vinna á sínum sjúkdómum og sigrast á þeim er að tala og segja frá sínum árangri.“

Er mataræðið mikilvægt?
„Mataræðið skiptir öllu. Ef þú ert ekki að standa þig í mataræðinu þá er í rauninni ekkert að gerast líkamlega þannig séð. Hreyfingin ein út af fyrir sig er þó alltaf góð, að styrkja líkama og sál. En ef þú ætlar að grennast sérstaklega þá er mataræðið mikilvægast.“

Þú ert núna ófrísk af barni númer fjögur. Hefur þú haldið áfram að hreyfa þig eins mikið á meðgöngunni og áður?
„Ég hef breytt hreyfingunni aðeins. Ég er ekki eins mikið að hlaupa og hoppa núna en ég hreyfi mig á hverjum einasta degi, er að þjálfa „Þitt form“ námskeið og er líka með þjálfun niðri í tækjasal. Þannig ég hef minnkað aðeins æfingarnar en held áfram að þjálfa, er komin 32 vikur núna þannig það er lítið eftir hjá mér.“
 

Hér má sjá viðtalið við Freyju sem birtist í Suðurnesjamagasíni