„Það skiptir mestu máli að hafa gaman“
- Segir Sigurrós Hrólfsdóttir formaður kvennaráðs Golfklúbbs Suðurnesja
Kvennastarf Golfklúbbs Suðurnesja hefur farið ört vaxandi á síðustu árum, stjórnin er öflug og eru þær duglegar að vera með hinar ýmsar uppákomur en aðalmarkmiðið er að hafa gaman. Við ræddum við Sigurrósu Hrólfsdóttur sem er ritari Golfklúbbs Suðurnesja ásamt því að hún er formaður kvennaráðs.
Hvað eru margar konur í klúbbnum hjá ykkur?
„Þær sem eru virkar hjá okkur eru örugglega komnar upp í 50 konur og það er alltaf að fjölga hjá okkur í klúbbnum. Margar eru á námskeiði hjá Karen Sævars sem er golfkennari hjá okkur og spila Jóel sem er byrjendavöllurinn okkar. Við fengum einmitt Karen með okkur í lið í sumar þegar við ákváðum að vera með nýliðadag en þá buðum við nýliðunum að koma og spila á „stóra“ vellinum. Karen kom og talaði við stelpurnar og fór yfir ýmislegt sem viðkemur golfinu og þeim fannst æðislegt að fá að upplifa þennan dag. Við auglýstum þetta inn á Facebook-síðu hópsins GS konur og sló þetta heldur betur í gegn, sumar konur eru smeykar við það að koma á aðalvöllinn okkar en svo þegar þær eru búnar að prófa og komnar af stað þá er þetta ekkert mál.“
Hvenær byrjaði starfið hjá ykkur?
„Það byrjaði af krafti fyrir um þremur árum síðan og það hefur heldur betur stækkað síðan þá. Konur og ef ekki flestir vilja hafa gaman í golfi og við pössum okkur á því að það sé gaman. Á mánudögum hittumst við sem komumst til að spila og tökum níu holur, það tekur ekki nema um tvo til tvo og hálfan tíma að spila níu holur og síðan komum við allar inn í golfskála og fáum okkur kaffibolla og spjöllum svolítið saman. Við erum líka með fuglabúr eða „birdie“-búr og þær sem fá fugl merkja kúluna sína og númer holunnar og það hafa nú þegar safnast þónokkuð margar kúlur í búrið sem sýnir hvað þær eru öflugar konurnar hérna. Þegar við hittumst síðan í síðasta skiptið í haust þá munum við draga kúlu úr búrinu þar sem að „birdie“-drottningin verður krýnd með kórónu og verðlaunum“.
Þegar blaðamaður mætti á svæðið voru þónokkrar konur mættar í köflóttum skyrtum, með tóbaksklúta, kúrekahatta og í gallajökkum. Þema dagsins var kúrekaþema. „Við höfum verið duglegar að gera starfið skemmtilegt og einu sinni í mánuði erum við með þema, við höfum meðal annars verið með bleikt þema og eitt skiptið vorum við með pilsaþema þar sem að þær mættu í pilsi utan yfir regnbuxurnar sínar vegna veðurs og síðan í dag erum við með kúrekaþema, veðrið skiptir ekki máli þegar það er þema, heldur bara að vera með“.
Meistaramót GS fór fram í júlímánuði og segir Sigurrós að það hafi orðið aukning í opna flokknum sem er fyrir konur með 30+ í forgjöf. Hún segir einnig að fjölgunin í þeim flokki sé mjög jákvæð og vonandi verða ennþá fleiri næsta sumar.
Mikilvægt að öllum líði vel
„Við viljum að öllum konunun líði vel, hér er ekkert baktal, við tökum á móti öllum nýliðum með opnum örmum, alveg sama hver það er. Við höfum allar verið nýliðar á einhverjum tímapunkti á okkar golfferli og því er mikilvægt að það sé vel tekið á móti þeim sem eru að byrja og stíga sín fyrstu skref á golfvellinum. Félagsstarfið hér er mjög öflugt og við drögum alltaf hverjar spila saman þegar við erum að spila á mánudögum, vanar og óvanar spila saman og þá kynnast líka allar innbyrðis. Þannig að ef þig langar til þess að spila og kíkir inn á golf.is þá getur þú skráð þig með einhverri sem þú þekkir eða spurt á Fésbókarsíðunni okkar hvort einhver sé til í að koma að spila. Sumar vilja líka bara spila einar eða með mönnunum sínum og það er í góðu lagi“.
Aldursbilið í hópnum er mjög breitt og eru stelpur frá 25 ára til 65 ára sem spila með í kvennastarfinu. „Við spilum allskonar golf, meðal annars Texas scramble og annað slíkt. Í dag ætlum við að nota band eða „reipi“ þar sem það er kúrekaþema og fær hver og ein helminginn af sinni forgjöf í formi bands eða spotta og getur notað það til þess að stytta sér leið að holu. Við gerum alltaf eitthvað skemmtilegt“.
„Vinaklúbbur okkar er Setbergsvöllur og við förum einu sinni á ári til þeirra og spilum saman og síðan koma þær hingað einu sinni á ári. Við ræsum út með svokölluðu „shotgun“ fyrirkomulagi þar sem að allar eru ræstar út á sama tíma á öllum holum þannig að flestar eru búnar á svipuðum tíma, síðan komum við inn og eigum notalega stund saman þegar við erum búnar að spila. Það hefur alltaf farið rúta í þessar ferðir og mætingin hefur verið góð enda ótrúlega skemmtilegur dagur og gaman að hitta konur úr öðrum klúbb til að spila með“.
Kúrekaþema var þema dagsins þegar VF leit við.