Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

„Það getur allt gerst“ – Keflavík tekur á móti Njarðvík
Logi Gunnarsson.
Fimmtudagur 5. febrúar 2015 kl. 08:14

„Það getur allt gerst“ – Keflavík tekur á móti Njarðvík

„Þetta eru alltaf rosalega skemmtilegir leikir og heimavöllurinn skiptir ekki alltaf máli – það getur allt gerst í þessum leikjum,“ sagði Logi Gunnarsson fyrirliði Njarðvíkur við Víkurfréttir en í kvöld er risaleikur í Dominosdeild karla þar sem Keflavík tekur á móti Njarðvík í 16. umferð. Leikurinn hefst kl. 19.15 í íþróttahúsinu við Sunnubraut. 

Njarðvík er með 18 stig í fjórða sæti deildarinnar en Keflavík er með 16 stig. Keflavík vann fyrri leikinn í Njarðvík en miklar breytingar hafa verið gerðar á liðunum frá þeim tíma.  

„Maður þekkir flest andlitin í báðum stúkunum á þessum leikjum og það gerir þessa leiki skemmtilegri. Við ætlum að halda áfram að bæta okkar leik – en það hefur verið góður skriður á okkur í síðustu leikjum. Það eru aðeins tveir sigurleikir í annað sætið en einnig er stutt í það áttunda. Það er gríðarlega mikilvægt að ná einu af fjórum efstu sætunum upp á heimaleikjaréttinn í fyrstu umferðinni í úrslitakeppninni. Þessi leikur er mikilvægur í þeirri baráttu.“

Logi segir að Dominos-deildin hafi verið skemmtileg og jöfn í vetur. „Við höldum áfram að sjá unga og efnilega leikmenn fá tækifæri – og þeir eru að spila stór hlutverk.  Hvað okkur varðar þá þurfum við að halda áfram að vinna í okkar leik með nýjum leikstjórnanda, Stefan Bonneau. Vörnin hefur verið góð en það hefur vantað stöðugleika í sóknarleikinn. Það mun koma  með fleiri leikjum sem við spilum saman.“

Hinn leikreyndi landsliðsmaður er ánægður með stemninguna sem er í körfuboltanum á Íslandi. „Stemningin er góð á leikjum og það er eins og árangur landsliðsins hafi gefið okkur aukinn kraft. Það er mjög góð stemning á heimaleikjum Njarðvíkur en ég er ekki sáttur við umfjöllunina um körfuboltann í sjónvarpi. Það er allt of lítið fjallað um körfuboltann í sjónvarpsfréttum,“ sagði Logi Gunnarsson. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024