„Það eru gerðar miklar væntingar til okkar“
-Segir Elvar Már í viðtali um lífið í háskólaboltanum
Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson spilar með Barry University í Miami en þeim var nýlega spáð 12. sætinu í annarri deild háskólaboltans af fjölmiðlum ytra. Elvar er á þriðja ári og spilar stöðu leikstjórnanda. Á síðasta tímabili var Elvar stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar með 8,1 að meðaltali í leik en hann var auk þess með 10,8 stig að meðaltali. Fjölmiðillinn Sporting News veitti Elvari viðurkenningu nýlega fyrir góðan árangur á síðasta tímabili með Barry.
Hvernig leggst komandi tímabil í þig? Og hvaða væntingar hefurðu til þess?
Komandi tímabil leggst mjög vel í mig, ég er fullur tilhlökkunar og er bjartsýnn á gott gengi í vetur. Það eru gerðar miklar væntingar til okkar og okkur er spáð góðu gengi, við erum með marga nýja leikmenn svo það kemur í ljós hvort við náum að fylgja því.
Hvernig hefur undirbúningstímabilið verið?
Undirbúningstímabilið er full langt og biðin er löng eftir fyrsta leik. Þær æfingar einkennast af miklum hlaupum og lyftingum ásamt einstaklingsæfingum. Liðsæfingar byrja frekar seint, svo mesti undirbúningurinn hefur verið að koma manni í gott form líkamlega. Það hjálpaði til að ég kom út mánuði of seint vegna landsliðisins svo það stytti undirbúningstímabilið mikið.
Hvaða markmið hefur liðið þitt fyrir þetta tímabil og þú persónulega?
Markmið okkar er að vinna okkar riðil og komast í úrslitakeppnina og gera eins vel þar og við getum. Mitt persónulega markmið er að bæta minn leik jafnt og þétt og gera eins vel og eg get að hjálpa mínu liði að vinna sem flesta leiki.
Hvernig er liðsandinn?
Liðsandinn er góður, við erum með marga stráka frá mismunandi stöðum, næstum helmingur leikmannanna er frá Evrópu svo þetta er líkara því að vera í liði frá Evrópu heldur en Bandaríkjunum. En þetta eru allt frábærir strákar og andinn góður.
Hvaða liði hlakkarðu mest til að mæta?
Ég hlakkaði mest til að mæta University of Miami en þeir eru mjög stór skóli og einn af bestu skólum í Bandaríkjunum. Það var fyrsti leikurinn okkar. Það var mikil upplifun, mjög skemmtilegur leikur þar sem við áttum hörkuleik við þá. Annars hlakka ég bara til næsta leiks, mér finnst alltaf jafn gaman að spila, sama á móti hverjum það er.