„Það eru forréttindi að fá þetta tækifæri“
- Lilja Björk hefur æft fimleika í sextán ár
Keflvíkingurinn Lilja Björk Ólafsdóttir er fyrst íslenskra fimleikastúlkna til að fá skólastyrk í Bandaríkjunum í gegnum fimleika. Lilja hefur æft fimleika í um sextán ár en vegurinn að skólastyrknum hefur ekki verið beinn og breiður og hafa ýmsar hindranir orðið á vegi hennar en hún hélt meðal annars á tímabili að hún gæti aldrei aftur æft fimleika. Lilja stefnir langt í íþróttinni og segir að það þurfi alltaf að leggja sig hundrað prósent fram til þess að ná árangri.
Vonar að þetta opni tækifæri fyrir fleiri stelpur á Íslandi
Lilja flutti til Vestur Virginíu í desember 2013 en eftir að hún flutti hefur hún vitað af stelpum í Bandaríkjunum sem stefna á háskóla fimleika, henni fannst það spennandi og langaði sjálfri að stefna á þangað líka. Lilja er, eins og áður hefur komið fram fyrst íslenskra kvenna til að fara á skólastyrk til USA í fimleikum en áður hafa tveir íslenskir strákar komist á fimleikastyrk í skóla í Bandaríkjunum. „Þetta verður vonandi til þess að fleiri íslenskar fimleikastúlkur fá sama tækifæri og ég og það eru algjör forréttindi að fá þetta tækifæri. Það er flott umgjörð í kringum háskólaíþróttir í Bandaríkjunum og ég varð alveg heilluð þegar ég fór og heimsótti nokkra skóla og sá hversu vel er hugsað um íþróttafólkið.“
Allt til staðar fyrir íþróttamanninn
Lilja segir að það sé mikið lagt upp úr því að halda íþróttafólkinu heilbrigðu í háskólanum með alls kyns fyrirbyggjandi aðferðum eins og styrktarþjálfun, nuddi og að það sé allt til staðar fyrir það sem íþróttamaðurinn þarfnast. „Íþróttamenn fá líka sérstakt utanumhald hvað varðar námið, en það er forgangsatriði að maður standi sig vel í námi til þess að fá að keppa. Þegar ég fór í heimsókn, þá sagði ráðgjafinn við mig; „Við viljum að þú haldir áfram að vaxa sem fimleikakona og verðir betri, en aðalatriðið er samt að þú ert komin hingað til að mennta þig fyrir framtíðina.“
Grunnurinn er mikilvægur í fimleikum
Námið sem Lilja er að fara leggja stund á er fjögur ár og mun hún útskrifast með BA gráðu í lífeðlisfræðum að því loknu, síðan stefnir hún á læknisfræði. Lilja hefur æft fimleika síðan hún var um tveggja ára gömul eða í tæp sextán ár og hún segir að lykillinn að góðum árangri sé að leggja sig alltaf hundrað prósent fram á æfingum. „Í fimleikum skiptir mjög miklu máli að vera með góðan grunn, styrk og liðleika svo að maður geti haldið alltaf áfram að bæta sig. Síðan skiptir miklu máli að borða hollt, fá góðan svefn, vera skipulagður og með hausinn á réttum stað.“
Mikilvægt að hlusta á líkamann
Lilja Björk hefur lent í ýmsum hindrunum á sínum fimleikaferli og hefur áttað sig á því í gegnum tíðina að það er mikilvægt að hlusta á líkamann sinn. „Ég hef lent í tveimur alvarlegum álagsmeiðslum, þar sem ég var ekki viss um að ég gæti haldið áfram í fimleikum. Haustið 2014 fór ég í aðgerð á olnboga þar sem setja þurfti gervibrjósk í staðinn fyrir mitt sem var í molum. Ég var þá í sex mánuði frá fimleikunum sem var erfitt sér í lagi þar sem ég var ekki viss hvort ég yrði nógu góð til að geta æft fimleika áfram, en ég náði mér að fullu og snéri tvíefld til baka.“ Tveimur árum seinna eða 2016 fór Lilja að finna fyrir verk í baki sem ágerðist og þurfti í kjölfarið af því að taka sér sex mánaða frí frá fimleikum „Það var gríðarlega erfitt en ég var með alveg frábæran lækni úti og sjúkraþjálfara sem hjálpuðu mér að komast til baka. Ég lærði ýmsar æfingar til að styrkja bakið og koma í veg fyrir fleiri meiðsli en þessi meiðsli kenndu mér að það skiptir gríðarlega miklu máli að hlusta á líkamann sinn.“
Er spennt fyrir komandi árum
Í byrjun september fer Lilja út til Seattle og segist hún vera afar spennt fyrir komandi árum en hún heimsótti skólann, Seattle Pacific, í janúar á þessu ári og henni lýst vel á borgina, skólann og stelpurnar sem eru í liðinu. „Þetta á samt alveg örugglega líka eftir að vera erfitt, að búa svona langt í burtu og vera í erfiðu námi með fimleikunum.“ Lilja stefnir á „Nationals“ í fimleikunum úti í Bandaríkjunum en það er úrslitamót þar sem aðeins þær bestu komast á. „Ég veit ekki hvort það verður mögulegt að koma heim og keppa á Íslandi þegar ég er byrjuð í skólanum, það kitlar auðvitað að eiga möguleika að keppa fyrir Íslands hönd en það verður bara að koma í ljós hvort það eigi einhverja samleið.“