Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Tekur það jákvæða úr tímabilinu
Fimmtudagur 2. október 2014 kl. 09:33

Tekur það jákvæða úr tímabilinu

-Jóhann Birnir hefur hug á því að spila áfram með Keflvíkingum

Miðjumaðurinn reynslumikli hjá Keflvíkingum, Jóhann Birnir Guðmundsson, segist orðið sjá fyrir endan á ferlinum í fótboltanum. Jóhann verður 37 ára í desember en hefur hug á því að taka slaginn með Keflvíkingum áfram á næsta ári. Tímabilið í ár er þó búið hjá Jóhanni sökum meiðsla. „Maður er alveg farinn að átta sig á því að það styttist í annan endann á ferlinum. Mér finnst ennþá mjög gaman í fótbolta og langar að spila áfram. Ég tek nú bara eitt ár í einu. Undanfarin ár hef ég gert samninga til eins árs, ég hugsa að það verði bara copy/paste núna,“ segir Jóhann sem ekki getur hugsað sér að spila með öðru liði í efstu deild. „Ég hef bara engan áhuga á því og það myndi ekki koma til greina.“

Jóhann telur að óhætt sé að segja að Keflvíkingar hafi verið hæstánægðir eftir sigurinn í Eyjum sem tryggði veru þeirra í efstu deild. „Þetta var gríðarlegur léttir þar sem við vorum búnir að koma okkur í leiðindamál. Það var líka langt síðan við unnum og leikurinn var flottur af okkar hálfu.“ Hann hafði aldrei trú á því að Keflvíkingar væru að fara að falla en neitar því ekki að staðan hafi verið leiðinleg.
„Það er svekkjandi að hafa ekki gert betur úr þessari stöðu sem við vorum komnir í í byrjun sumars, það er ekki hægt að horfa framhjá því. Það er þó margt jákvætt á tímabilinu, t.d. eins og bikarúrslitin, þrátt fyrir tap þar. Líka sú staðreynd að margir ungir leikmenn fengu að láta ljós sitt skína. Það að lenda í svona baráttu er eitthvað sem fer í reynslubankann hjá okkur öllum.“

Public deli
Public deli

Allt í mínus í deildinni

Þrátt fyrir slakt gengi í deildinni þá var ævintýrið í bikarnum ákveðin sárabót fyrir Keflvíkinga.
„Við vinnum leiki í bikarnum en það bara gerist þannig að í deildinni fór allt í mínus. Stundum er það þannig að því lengra sem líður á milli sigra þá minnkar sjálfstraustið. Það gerði illt verra að við vorum ekki að tapa á neinn eðlilegan hátt. Við vorum að fá mikið af mörkum á okkur í lok leikja og þar fram eftir götunum. Það er ekki eins og við höfum verið rassskelltir í öllum þessum leikjum,“ segir Jóhann.