Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Teknir í gegn á lokamínútunum
Þriðjudagur 17. maí 2005 kl. 01:19

Teknir í gegn á lokamínútunum

Keflavík tapaði fyrir FH í kvöld, 3-0, á Keflavíkurvelli. Leikurinn var ansi dauflegur en lokatölurnar gefa ekki rétta mynd af gangi hans. Keflavík lék mun betur en í viðureign liðanna í síðustu viku og átti í fullu tré við meistarana, en tvö mörk eftir að vanjulegum leiktíma lauk gerðu endanlega út um leikinn.

Mikil og góð stemmning var á pöllunum í upphafi leiks þar sem fjölmenni var úr röðum beggja stuðningsmannahópa. Á vellinum sjálfum var öllu rólegra þar sem liðin þreifuðu fyrir sér, aðallega á vallarhelmingi heimaliðsins.

Keflvíkingar náðu undirtökunum smám saman og áttu hættulegri færi án þess þó að ógna verulega. Baldur Sigurðsson átti skot af löngu færi á 10. mín sem Daði Lárusson í marki FH varði vel, en Guðmundur Steinarsson átti enn betra skot úr aukaspyrnu 2 mín síðar. Skot hans af 25m færi var lúmskt og stefndi neðarlega í vinstra hornið en Daði varði í horn.

Meistararnir sóttu aftur í sig veðrið og áttu nokkur hálffæri fram að 28. mín þegar Tryggvi Guðmundsson fékk langa sendingu inn fyrir vörn Keflavíkur. Hann lék laglega á Guðjón Antoníusson á vinstra teighorninu og sendi boltann með hægri fæti í fjærhornið framhjá Ómari í markinu. Staðan 0-1 eftir fyrsta alvöru færi FH-inga í leiknum.

Spilið hjá FH hresstist til muna eftir markið og voru miðjumennirnir duglegir við að senda boltann í eyður fyrir sóknarmennina, en Ómar markmaður var á tánum og varði allt sem á markið kom.

Staðan í hálfleik var 0-1 en hvorugt liðið hafði verið áberandi betra í leiknum. Seinni hálfleikur fór rólega af stað þar sem fátt var um góðar sóknir eða skemmtileg tilþríf.

Ekki dró verulega til tíðinda fyrr en á 75. mínútu þegar Hólmar Örn Rúnarsson tætti sig í gegnum vörn FH og átti gott skot úr teignum sem Daði náði að verja. Hólmar sást lítið í leiknum en þessi rispa sýndi hvað hann er fær um.

Þegar langt var liðið á leiknum var ljóst að Keflvíkingar bæru skarðan hlut frá borði ef þeir gerðu ekkert í sínum málum sóknarlega. Þeir hættu sér framar á völlinn, en var refsað illilega. Brian O’Callaghan, írski varnarmaðurinn sem hafði átt ágætan leik í stöðu miðvarðar, skoraði klaufalegt sjálfsmark rétt eftir lok venjulegs leiktíma er hann renndi sér í fyrirgjöf sem var ætluð Allan Borgvardt. Knötturinn hrökk af honum og fram hjá Ómari.

Þegar ástandið gat varla versnað fyrir Keflavík skoraði varamaðurinn Ármann Smári Björnsson þriðja markið. Hann fékk háa sendingu utarlega í teignum og skallaði yfir Ómar og beint í netið.

Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflavíkur, sagði í leikslok að úrslitin hefðu alls ekki verið í takt við leikinn. „Þetta var allt í lagi fram á 90 mínútu. Það hafði verið jafnræði með liðunum og þetta hefði hæglega getað dottið niður í jafntefli. Við stóðum mun betur í þeim en flestir hefðu þorað að vona, við þurftum bara að spila fastar fram á við og vera beittari í sókninni.“ Guðmundur meiddist í leiknum og er óvíst hvort hann verði með í næsta leik, en stefnt er á að bæta framherja í hópinn til að auka breiddina.

Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var sammála Guðmundi. „Við þurftum að vera harðari og ráðast á þá í sókninni, en það var ferlegt að fá á sig þessi tvö mörk undir lokin. Með svolítilli heppni og ákveðni hefði leikurinn getað gengið upp og ef við hefðum fylgt því betur eftir sem við lögðum upp með. Kannski snýst þetta líka svolítið um sjálfstraust, en það hefur gengið á ýmsu fyrir liðið eins og allir vita.“

VF-myndir/Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024