Tékkneskur framherji til Grindavíkur
Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur samið við tékkneska framherjann Michal Pospisil til næstu tveggja ára. Hann hefur verið til reynslu hjá félaginu að undanförnu og skoraði m.a. í tvígang í æfingaleik gegn Stjörnunni um helgina.
Pospisil er 31 árs og reynslumikill framherji sem hefur leikið í efstu deild í þremur löndum. Hann hefur leikið 186 leiki í efstu deild í Tékklandi og skorað 40 mörk m.a. með Spörtu Prag þar sem hann varð meistari 2003, 48 leiki með Hearts í Skotlandi og skoraði 12 mörk og svo St. Truiden í Belgíu (16/2). Nú síðast lék hann í Bohemians Prag í Tékklandi. Þá hefur hann leikið 21 landsleik fyrir U21 lið Tékklands (5 mörk) og varð Evrópumeistari með félaginu 2002.
Pospisil mun leysa markakóng Íslandsmótsins í fyrra, Gilles Mbang Ondo, af hólmi í fremstu víglínu Grindavíkurliðsins.
Mynd af vef Ungmennafélags Grindavíkur.