Teitur Örlygsson spáir KR-ingum sigrum í dag
Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar er handhafi flestra Íslandsmeistaratitla í úrvalsdeild karla. Hann á að baki einkar glæsilegan feril með Njarðvíkingum og er jafnan nefndur þegar bestu körfuknattleiksmenn Íslandssögunnar eru í umræðunni. Teitur hefur margoft spilað í bikarúrslitum og hampað titlinum alls 8 sinnum, einnig hefur hann hampað titlinum sem þjálfari með Stjörnunni árið 2009. Við ætlum ekki að telja upp öll afrek Teits á ferlinum í þessari stuttu grein heldur ætlum við að reyna á spádómsgáfu kappanns fyrir úrslitaleiki bikarkeppni KKÍ sem fram fara seinna í dag.
Hvernig fer leikur Grindavíkur og KR?
„Í karlaflokki spái ég KR sigri með u.þ.b 10 stigum. KR eru betri í augnablikinu, aðallega vegna leikmannabreytinga hjá Grindavík undanfarið. Það tekur smá tíma að pússa þetta saman og ef eitthvað er að marka leik þeirra á mánudaginn (gegn Stjörnunni) eiga þeir nokkuð í land.“
Hvernig fer leikur Keflavíkur og KR?
„Ég held að kvennaleikurinn verði bara járn í járn og úrslit ráðist ekki fyrr en í lokasókn. En ég spái KR sigri eftir framlengingu.“