Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Teitur meistari og Grindvíkingar í 3. sæti
Fimmtudagur 6. október 2011 kl. 14:21

Teitur meistari og Grindvíkingar í 3. sæti

Spáin 2011-2012 IEX karla: Stjörnunni spáð Íslandsmeistaratitlinum

Við birtum nú spána fyrir úrvalsdeild karla 2011-2012 í körfubolta þar sem Suðurnesjaliðunum er spáð misjöfnu gengi. Karfan.is fékk boltaspekinga víðsvegar um landið til að setja niður sína spá og setja í efsta sæti það lið sem þeir teldu að yrðu Íslandsmeistarar.

Útkoman varð sú að lærisveinar Teits Örlygssonar í Stjörnunni úr Garðabæ munu vinna sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil samkvæmt spekingunum og það komi í hlut nýliða Vals og Tindastóls að falla. Suðurnesjaliðin skipa sér í efri hluta deildarinnar en Grindvíkingum er spáð þriðja sætinu. Keflvíkingar munu hafna í fimmta sæti samkvæmt spánni og ungt lið Njarðvíkinga verður í því áttunda.

Spá Karfan.is í Iceland Express deild karla 2011-2012 má lesa nánar hér á karfan.is:

1. sæti Stjarnan - 154
2. sæti KR - 148
3. sæti Grindavík - 139
4. sæti Snæfell - 137
5. sæti Keflavík - 107
6. sæti ÍR - 94
7. sæti Haukar - 67
8. sæti Njarðvík - 55
9. sæti Þór Þorlákshöfn - 51
10. sæti Fjölnir - 46
11. sæti Tindastóll - 44
12. sæti Valur - 21


Fjallað er um liðin á karfan.is:

8. sæti – Njarðvík
Ungmennafélag Njarðvíkur eru orð að sönnu þetta tímabilið, fæstir liðsmenn hópsins hafa náð 20 ára aldri og nýráðinn liðsmaður félagsins, Cameron Echols er þrítugur og sannkallaður aldursforseti hópsins. Einar Árni Jóhannsson og Friðrik Pétur Ragnarsson stýra liðinu en þeir tóku við hópnum þegar vel var liðið á síðasta tímabil. Mikið mun mæða á Rúnari Inga Erlingssyni, Hirti Hrafni Einarssyni og Ólafi Jónssyni en þess má þó geta að Elvar Friðriksson hefur vakið verðskuldaða athygli á undirbúningstímabilinu. Blóðtaka liðsins er engin smásmíði þetta tímabilið, Friðrik Stefánsson og Páll Kristinsson eru hættir, Jóhann Árni Ólafsson fór í Grindavík, Egill Jónsson í pásu og Guðmundur Jónsson í Þór Þorlákshöfn.

5. sæti – Keflavík
Blóðtaka Keflavíkur í sumar var ansi svæsin, Gunnar Einarsson er hættur, Sigurður Gunnar Þorsteinsson fór í Grindavík, Hörður Axel Vilhjálmsson fór í atvinnumennsku og Jón N. Hafsteinsson hefur lítið sést í Toyota-höllinni á undirbúningstímabilinu. Hvað verður með Jón skal ósagt látið en Keflvíkingar eru með mikið breytt lið. Sumarið færði þeim Val Orra Valsson frá FSu og Arnar Freyr Jónsson er kominn heim og að stíga upp úr meiðslum en skellti samt 28 stigum yfir Stjörnuna í Reykjanesmótinu á dögunum. Keflvíkingar eru nokkuð spurningamerki þetta tímabilið en Jarryd Cole mun ógna í teignum og Magnús Þór Gunnarsson fyrir utan svo það er allt opið hjá liðinu sem hefur verið afksrifað oftar en skuldir auðmanna. Þessar afskriftir á Keflavíkurliðinu hafa oftar en ekki verið vatn á millu liðsmanna félagsins og hafa þeir tætt í sig allnokkrar spár.

3. sæti – Grindavík
Gulir hafa ekki þótt nægilega sterkir miðað við ,,pappíra“ á undirbúningstímabilinu en Grindvíkingar hafa verið án leikstjórnanda. Þeir sömdu þó við Giordan Watson sem vakti athygli með Njarðvíkingum undir lok síðasta tímabils. Sumarið færði gulum Jóhann Árna Ólafsson og Sigurð Gunnar Þorsteinsson en fyrir í Grindavík má finna sleggjurnar Ólaf Ólafsson, Þorleif Ólafsson, Ómar Sævarsson og Pál Axel Vilbergsson sem reyndar hefur ekkert verið með á undirbúningstímabilinu. Hér fer þó sterkur hópur sem vafalítið verður í toppbaráttunni í vetur undir stjórn Helga Jónasar Guðfinnssonar.

VF-Mynd/EJS: Jóhann Árni Ólafsson og félagar í Grindavík eru með sterkan hóp og verða eflaust í toppbaráttu Iceland-Express deildarinnar í vetur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024