Team Pumba í betra formi í ár
- Vilja fleiri malarvegi og minna malbik
Aðalskoðunar rallý Akstursíþróttafélags Suðurnesja lauk um helgina síðustu eftir æsispennandi keppni. Suðurnesjamennirnir og núverandi Íslandsmeistarar, þeir Henning Ólafsson og Árni Gunnlaugsson, höfnuðu í þriðja sæti í keppninni að þessu sinni. Annað Suðurnesjatvíeyki, þeir Sigurður Arnar Pálsson og Brynjar Guðmundsson höfnuðu í 7. sæti. Bæði þessi lið aka á Subaru Impreza. Farið var víða um Suðurnesin í keppninni en ökumenn fóru af stað um Nikkelsvæðið en svo var ekin að venju hin sívinsæla leið um höfnina í Keflavík en þar voru fjölmargir áhorfendur mættir til þess að fylgjast með. Meðal annarra ökuleiða á Suðurnesjum sem var farið um helgina voru Djúpavatn, Stapafell, Helguvík og Stapi. Víkurfréttir tóku þá Árna og Henning tali og spurði þá út í stöðu akstursíþrótta á Suðurnesjum. Gróskan virðist vera með miklum ágætum í bílasporti á Suðurnesjum og hafa ökuþórar héðan verið nokkuð sigursælir undanfarin ár.
Akstursíþróttafélag Suðurnesja (AÍFS) er hagsmunafélag um hvers kyns akstursíþróttir en félagið var stofnað árið 1982 og hefur staðið fyrir ótal rallýkeppnum, torfærukeppnum, rallýkrossi og gókartkeppnum síðan þá.
„Það hefur verið ágætis gróska í akstursíþróttum á Suðurnesjum, en hún mætti vera meiri. Svæðið er ekki alveg til staðar hérna en við þurfum að sækja nokkuð til Hafnarfjarðar. Það er eitthvað sem við erum að vinna í og þurfum að bæta. Það er verið að malbika dálítið mikið. Ein af okkar helstu leiðum er við Djúpavatn en að okkar mati vantar meira af malarvegum,“ segir Árni sem er aðstoðarökumaður liðsins sem þeir félagar nefna team Pumba. „Undir okkar merkjum er keppt í flestum greinum en félagið er öflugt á landsvísu með yfir 140 meðlimi.“ Nýlega var fjárfest í nýju húsnæði og segir Henning að félagið sé á mikilli uppleið. Félagið keppir m.a. í: Rallýkross, rallý, torfæru, kvartmílu og gókart.
Eru Suðurnesjamenn góðir í þessum akstursíþróttum?
„Við teljum okkur vera það. Við erum ríkjandi meistarar og ætlum okkur að reyna að verja titilinn,“ segir ökumaðurinn Henning. Í fyrstu keppni sumarsins féllu þeir félagar úr keppni vegna lítillar hosu sem gaf sig. „Við vonum bara að fall sé fararheill en við ætlum okkur að berjast um titilinn,“ bætir Árni við. Rallið sem fór fram um helgina á Suðurnesjum var annað mót af fimm sem fara fram í sumar, þar af er eitt alþjóðlegt þriggja daga rallý sem fram fer í ágúst.
Hvernig undirbúa menn sig fyrir svona keppni?
„Við förum vandlega yfir allan bílinn. Þrátt fyrir að einungis séu keyrðir um 100 km í svona keppni þá er skipt um stýrisenda og spindilkúlur á meðan á keppni stendur. Þú endurnýjar þessa slitfleti þar sem þeir verða fyrir miklu álagi,“ segir Henning. Áður en keppni hefst eru leiðirnar farnar og gerðar sérstakar leiðarnótur. Þær nótur eru yfirfarnar í tví- eða þrígang en þar kemur sterkt inn hlutverk aðstoðarökumannsins. Mikið umstang er í kringum einn keppnisbíl en sérstakur þjónustubíll fylgir þeim Henning og Árna, þar sem 2-4 aðstoðarmenn eru til staðar og sjá um að allt sé í lagi. Á einu sumri má gera ráð fyrir því að 300.000 krónum sé varið í hjólbarða og í einni keppni geta auðveldlega farið 100 lítrar af bensíni. Þá hafa þeir Henning og Árni með sér fullan sendibíl af varahlutum. Fjárhagslega er því erfitt að halda úti rallýbíl. „Það fer óneitanlega mikill peningur í þetta. Það koma nokkur góð fyrirtæki að þessu með okkur sem létta okkur róðurinn talsvert,“ segir Árni en menn verða sjálfir að leggja töluvert út.
Hafnarleiðin einstök á Íslandi
Þegar ekið var með Keflavíkurhöfn á föstudag þá söfnuðust fjölmargir áhorfendur á hafnarbakkann og uppi við Aðalstöðina sálugu. „Þetta er nánast einsdæmi í öll þessi ár að það hafi fengist leyfi til þess að keyra hérna á höfninni í miðju bæjarfélagi. Það er mjög sérstakt og það er vinsælt að horfa á þetta,“ segir Henning.
Bíll þeirra félaga er af gerðinni Subaru Impreza árgerð 2001. Bíllinn er ekki mikið ekinn en þó við erfiðustu aðstæður sem reyna mikið á bílinn. Upphaflega var bíllinn smíðaður af fyrirtæki í Bretlandi en þeir Árni og Henning hafa varið miklum tíma í að breyta og aðlaga bílinn að þeirra þörfum. Bíllinn er á bilinu 250-300 hestöfl en það fer eftir uppsetningu á mótornum. „Vinnan við bílinn er á okkar herðum en við erum með stráka með okkur til aðstoðar. Þetta er auðvitað áhugamannasport og það hefst ekkert án góðarar samvinnu,“ segir ökumaðurinn Henning.
Þeir félagar hafa lært það af reynslunni að það þarf að halda líkamanum vel við, rétt eins og bílnum. „Við lærðum það í fyrra að það þarf að vera í formi. Við höfum verið að bæta okkur í því í vetur, líka fyrir okkur sjálfa. Við fórum að hreyfa okkur og það skilar sér hiklaust,“ segir Árni. Henning bætir því við að andlegi þátturinn hafi einnig áhrif. „Það blandast inn í þetta stress og álag auk þess sem hitinn hérna í bílnum er líklega um 30°C í keppnum.“