Taugarnar kannski pínu þandar
- segir Guðlaugur þjálfari Keflvíkinga eftir sigur á ÍR
„Það var djúpt á þessum sigri en mikilvægur var hann,“ sagði Guðlaugur Baldursson, þjálfari Inkassoliðs Keflavíkur í knattspyrnu eftir erfiðan sigur á ÍR á Nettóvellinum í gærkvöld.
Keflvíkingar fengu tvö mörk á sig á fjórum mínútum rétt áður en flautað var til leikshlés eftir að hafa náð forystu á 24. mín. með marki Adams Árna Róbertssonar og aðspurður um það sagði Guðlaugur að þá hefðu menn misst einbeitingu og ÍR skoraði í bæði skiptin í föstum leikatriðum.
Er sjálfstraustið farið eða minnkað sem var í hópnum í mótinu að undanskildum tapleiknum gegn Haukum í síðustu umferð. Það höfðu margir áhyggjur af því í hálfleik gegn ÍR. Þessi frammistaða var langt frá því sem þið hafið verið að sýna þó svo að þið hafið knúið fram sigur?
„Þetta var mikill karaktersigur í þessum leik. Gríðarlega mikilvæg þrjú stig og vel gert hjá strákunum þó þetta hafi verið erfiður leikur og ekki góður af okkar hálfu. Unnum þó svo við höfum ekki leikið vel. Það má vel vera að taugar leikmanna séu orðnar meira þandar núna þegar við erum komnir svona langt í mótinu og leikmenn farnir að sjá of langt fram í tímann. Það vill gerast. Ég vona bara að við náum að sýna okkar rétta andlit gegn Þór á Akureyri í næstu umferð. Það verður erfiður leikur,“ sagði Guðlaugur.“
Leikurinn var jafn fyrstu 20 mínúturnar en Keflvíkingar skoruðu fyrsta markið á 24. mín. Marko Nikolic tók hornspyrnu og boltinn fór beint á kollinn á Adami Árna sem skallaði í netið 1-0. Gestirnir jöfnuðu hins vegar á 41. mín. og komust svo í forystu fjórum mínútu síðar. Nú fór um marga heimamenn því Keflvíkingar fengu 4 mörk á sig gegn Haukum í tapleik í síðustu umferð.
Guðlaugur Keflavíkurþjálfari talaði vel yfir Keflvíkingum í hálfleik en þrátt fyrir það gekk þeim ekki spila boltanum eins vel og í undanförnum leikjum og var ekki mikil hætta á ferðum við ÍR-markið þó svo heimamenn væru nokkuð meira með boltann. ÍR-ingar áttu alltaf skyndisóknir inn á milli sem sköpuðu hættu. Leonard Sigurðsson og Jónas Sævarsson komu inn á fyrir Lasse Rise og Frans Elvarsson í upphafi síðari hálfleiks.
Smám saman þyngdust sóknir Keflavíkur og ein endaði með marki á 78. mín. Jeppe Hansen fékk boltann fyrir utan teig og lét svo vaða á markið, glæsilegt skot sem markvörður ÍR átti ekki möguleika á að verja. Áfram héldu heimamenn að sækja og níu mínútum síðar skoraði Leonard Sigurðsson sigurmark heimamanna þegar hann fékk boltann inni í teig. Gott skot endaði í markinu og það varð sigurmarkið í leiknum. Leonard fékk aftur dauðafæri nokkrum mínútum síðar en brást þá bogalistin. Lokatölur 3-2 fyrir bítlabæjarliðið sem er á toppi deildarinnar en það eru nokkur lið í humátt á eftir og líklegt að Keflavík þurfi að innbyrða nokkur stig í viðbót til að tryggja Pepsi-deildarsæti.
Páll Ketilsson, fréttamaður VF fór í síðari hálfleik bakvið mark ÍR og náði myndum af jöfnunarmarki og sigurmarki Keflavíkur.
Jeppe Hansen markahrókur Keflvíkinga í sumar skoraði glæsilegt jöfnunarmark. Hér er hann búinn að láta ríða af og boltinn á leið í markið.
Leonard skýtur að marki ÍR...
... og markvörðurinn ræður ekki við skotið.