Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tap í toppslag
Laugardagur 2. júlí 2005 kl. 12:42

Tap í toppslag

Njarðvíkingar máttu sætta sig við 1-2 tap á heimavelli gegn Leikni í kvöld, en fyrir leikinn voru liðin í fyrsta og öðru sæti 2. deildar karla í knattspyrnu.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn betur og fengu nokkur góð færi á fyrsta hálftímanum og var dæmt af þeim mark.

Gestirnir komust hins vegar fyrr á blað með marki frá Simon Karkov á 30. mínútu. Karkov einlék í gegnum vörn Njarðvíkinga og skoraði laglegt mark úr vítateig.

Staðan var 0-1 í hálfleik, en þrátt fyrir að Njarðvíkingar hæfi seinni hálfleikinn betur voru það Leiknismenn sem bættu við öðru marki. Það mark kom á 58. mínútu og var það Helgi Pétur Jóhannsson sem var þar á ferð.

Njarðvíkingar minnkuðu muninn á 72. mínútu og var þar að verki Sverrir Þór Sverrisson. Hann fékk laglega fyrirgjöf inn í teig þar sem hann skoraði með föstu skoti.

Njarðvíkingar sóttu án afláts síðustu mínúturnar og lágu hreinlega í sókn. Allt kom þó fyrir ekki og sigur Leiknis var staðreynd. Njarðvík er enn í öðru sæti, en Leiknismenn hafa nú 5 stiga forskot á toppnum.

VF-Myndir/Þorgils

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024