Tap hjá Njarðvík, háspenna í Grindavík
Njarðvíkingar máttu sætta sig við stórt tap gegn nýliðum FSu á útivelli. Lokatölur leiksins urðu 103-78 fyrir heimamenn, en Njarðvíkingar náðu sér aldrei á strik í kvöld. Atkvæðamestur í liði Njarðvíkur var Logi Gunnarsson með 19 stig. Í liði FSu var Sævar Sigurmundsson atkvæðamestur með 29 stig.
Í Grindavík var svo sannarlega háspenna lífshætta. Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit, en lokatölur leiksins urðu 110-109, Grindvíkingum. Grindvíkingar höfðu frumkvæðið lengst af í leiknum og voru í þægilegri stöðu fyrir lokasprettinn. Stjörnumenn neituðu að gefast upp og náðu með mikilli seiglu að jafna metin á lokasprettinum. Grindvíkingar voru hins vegar einu númeri stærri en Garðbæingar að þessu sinni og fórum með nauman sigur af hólmi.
Páll Axel Vilbergsson átti frábæran leik fyrir Grindavík, og sömu sögu er að segja af Justin Shouse í liði Stjörnunnar. Shouse var með 47 stig eða tæplega helming stiga Stjörnunnar. Páll Axel var með 39 stig fyrir heimamenn og tók 15 fráköst. Brenton Birmingham kom næstur með 18 stig.
VF-Mynd/JBÓ: Páll Axel Vilbergsson skoraði 39 stig fyrir Grindvíkinga í kvöld.