Tap hjá Keflavík í Eyjum
Keflavík lék í kvöld gegn ÍBV á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Leikurinn var sá áttundi sem Keflavík leikur í Bestu deild kvenna en Keflavík byrjaði vel, vann tvo fyrstu leikina en hefur tapað fimm leikjum og gert eitt jafntefli í síðustu sex umferðum. Leiknum lauk með 3:2 sigri ÍBV.
Sömu lið mættust í Mjólkurbikarnum fyrir rúmri viku og þá slógu Eyjakonur Keflavík út en í kvöld komust Keflvíkingar yfir á 14. mínútu þegar mistök áttu sér stað í vörn Eyjakvenna. Boltinn barst til Ana Paula Santos Silva sem sendi á Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur sem átti ekki í vandræðum með að afgreiða boltann í netið og staðan orðin 0:1.
ÍBV náði að jafna leikinn tíu mínútum síðar (24') og komast yfir á 31. mínútu. Staðan í hálfleik 2:1.
Seinni hálfleikur var rétt nýhafinn þegar Santos Silva jafnaði fyrir Keflavík (47'). Nú var hlutverkunum snúið við og Vigdís Lilja fékk boltann eftir önnur mistök í vörn ÍBV, Vigdís sendi á Santos Silva sem kláraði dæmið vel og staðan orðin 2:2.
Heimakonur komust enn á ný yfir á 55. mínútu og þar við sat. 3:2 tap á sterkum útivelli.