Tap hjá Grindavík á heimavelli
Grindvíkingar riðu ekki feitum hesti út úr viðureign sinni gegn Breiðablik á fallegum Grindavíkurvelli í kvöld. Þrátt fyrir að völlurinn væri sleginn fallega í hringi þá náðu Grindvíkingar ekki að nýta sér hvassviðrið á heimavelli þegar þeir lutu lægra haldi gegn Breiðablik, 0-1.
Grindvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og fóru geyst í öll návígi. Það hefur væntanlega slegið gestina úr Kópavoginum aðeins útaf laginu því Grindvíkingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik þó þeir léku gegn sterkum norðan vindi. Leikar stóðu 0-0 í hálfleik.
Í seinni hálfleik var eins og allt annað Grindavíkur lið mætti til leiks því baráttan sem hafði einkennt leik þeirra í fyrri hálfleik, var ekki lengur til staðar og gengu gestirnir á lagið. Þeir fengu mörg hættuleg færi en skoruðu eina mark leiksins eftir laglega sókn og var þar að verki Kristinn Steindórsson eftir góða sendingu frá Alfreð Finnbogasyni sem hefur farið mikinn í liði Breiðabliks í sumar. Alfreð þessi var þó að mæta aftur á heimaslóðir en hann steig sín fyrstu knattspyrnuspor hjá Grindavík á sínum yngri árum.
Grindvíkingar náðu ekki að skapa sér mörg færi í leiknum og en næst komst Jóhann Helgason því að jafna þegar hann fékk skotfæri fyrir opnum marki en skot hans fór hátt yfir markið. Tap staðreynd hjá Grindvíkingum sem sitja í 10. sæti Pepsi-deildarinnar með 8 stig eftir 11 leiki og eru einu stigi fyrir ofan ÍBV sem sitja í fallsæti.
Næsta umferð hefst á laugardaginn með stórleik FH og Keflavíkur í Kaplakrika en sá leikur hefst kl. 16:00. Degi síðar mæta Grindvíkingar Stjörnunni á Grindvíkur velli og hefst sá leikur kl. 19:15.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, fylgdist með leikmönnum í Grindavík í kvöld en leit reyndar út fyrir að vera nýkominn úr golfi.
VF-MYNDIR/JJK