Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tap gegn toppliðinu
Laugardagur 16. júní 2012 kl. 16:26

Tap gegn toppliðinu



Fyrrum leikmenn Keflavíkur létu finna fyrir sér í dag þegar Keflvíkingar tóku á móti FH-ingum í úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Bæði Guðjón Árni Antoníusson og Hólmar Örn Rúnarsson náðu að skora á móti fyrrum félögum sínum í 2-4 sigri FH í dag.

FH komst yfir á 28. mínútu með marki frá Atla Viðari Björnssyni og þannig var staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. Guðjón Árni jók forystu FH-inga eftir klukkutíma leik þegar hann fylgdi eftir aukaspyrnu sem fór í varnarvegg Keflvíkinga. Hólmar Örn skoraði síðan laglegt mark skömmu síðar og FH virtist búið að landa sigri.

Það liðu hins vegar ekki nema rúmar tvær mínútur þangað til að brotið var á Arnóri Ingva Traustasyni leikmanni Keflvíkinga inn í vítateig FH. Víti var því dæmt og Guðmundur Steinarsson fór á punktinn og minnkaði muninn með hnitmiðuðu skoti.

Atli Guðnason tryggði svo FH-ingum sigurinn algerlega með marki rétt fyrir leikslok. Arnór Ingvi náði þó að klóra í bakkann fyrir Keflavík með marki í blálokin úr aukaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur.

FH er á toppnum eftir sigurinn í dag en Keflvíkingar eru í 9. sæti með sjö stig eftir sjö leiki.

Ísak Þórðarson á hér skot að marki FH-inga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gunnleifur Gunnleifsson er líka fyrrum leikmaður Keflvíkinga. Hér fagnar hann marki Hólmars Arnar.

VF myndir: Eyþór Sæmundsson