Tap fyrir nýliðunum í slöppum leik
Keflavík tapaði öðrum leik sínum í röð í Bestu deild kvenna í knattspyrnu þegar nýliðar Aftureldingar mættu til Keflavíkur í kvöld. Keflavík komst yfir með marki úr vítaspyrnu en á stuttum kaflla skoraði Afturelding tvö mörk og þar við sat.
Leikurinn var óttalega flatur og lítið spennandi. Gestirnir léku skynsamlegan varnarleik og héldu sókn Keflvíkinga í skefjum en Keflavíkurliðið lék langt undir getu í kvöld og virtist vanta alla stemmningu í leikmenn. Ana Paula Santos Silva tók rispur af og til en hún fer einstaklega vel með boltann, les leikinn vel og er líkamlega sterk – samt náði hún ekki að búa neitt til ein síns liðs en það vantaði framlag frá fleiri leikmönnum en henni. Amelía Rún Fjeldsted virtist einna helst leggja sig fram og var svolítið í boltanum en almennt séð var andleysi yfir leik Keflvíkinga í kvöld.
Keflavík er í fjórða sæti Bestu deildar kvenna sem stendur en ekki er búið að spila alla leiki í fimmtu umferð.