Tap eftir tvíframlengingu
Grindavík ekki í úrslitakeppni eins og stendur
Tvær framlengingar þurfti til þegar Grindvíkingar sóttu Snæfell heim í Domino's deild karla í körfubolta í gær. Snæfell hafði að lokum 110:105 sigur í mikilvægum leik í baráttunni um 8. sætið og úrslitakeppnina.
Hvorugt liðið ætlaði sér að tapa í þessum fjögurra stiga leik og var hann æsispennandi frá upphafi. Þegar í framlengingu númer tvö var komið virtist vera meira eftir á tanknum hjá heimamönnum. Grindvíkingar voru ekki að hita vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Þar skiluðu þeir 16% nýtingu, settu niður 6 af 38 skotum. Samtals tóku bræðurnir Ingvi Þór og Jón Axel Guðmundssynir 14 þriggja stiga skot og hittu úr engu. Jóhann Árni tók 11 skot og setti tvö niður.
Grindvíkingar eru nú í 9. sæti tveimur stigum á eftir þremur næstu liðum.
Garcia skoraði 30 stig fyrir Grindvíkinga og tók 13 fráköst. Jón Axel var ekki langt frá þrennu, 22 stig, 13 fráköst og 8 stoðsendingar.