TaKesha Watson á leiðinni heim
Bandaríski leikstjórnandinn TaKesha Watson sem leikið hefur með körfuknattleiksliði Keflavíkur í vetur er á leiðinni heim en hún er með rifinn liðþófa. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir Keflavíkurkonur því Watson hefur átt frábært tímabil til þessa. Watson mun, þrátt fyrir meiðslin, leika með Keflavík gegn Hamri á mánudag í undanúrslitum Lýsingarbikarsins.
Ekki er nákvæmlega vitað hvenær Watson reif liðþófann en hún hefur verið meidd í rúmar tvær vikur, æft og leikið meidd. Nokkrir sjúkraþjálfarar hafa verið fengnir til að líta á meiðsli Watson og ber þeim öllum saman um að hún sé með rifinn liðþófa. Því varð það sameiginleg ákvörðun þjálfara Keflavíkur og Watson að hún myndi jafna sig af meiðslunum og hætta leik með Keflavík að loknum bikarleiknum gegn Hamri.
Agnar Mar Gunnarsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkurkvenna, sagði í samtali við Víkurfréttir að leit væri þegar hafin að staðgengli Watson og að Keflavík væri á höttunum eftir leikstjórnanda. ,,Hún er búin að vera mjög öflug og góður karakter og því sárt að sjá á eftir henni,” sagði Agnar.
TaKesha Watson lék 13 deildarleiki með Keflavík í vetur og gerði í þeim 23,8 stig að meðaltali í leik. Þá tók hún alls 58 fráköst og gaf 79 stoðsendingar og stal 62 boltum. Það er því mikil eftirsjá í Watson fyrir Keflavíkurliðið og ljóst að liðið þarf á öðrum eins spilara að halda því deildarrimma gegn Íslandsmeisturum Hauka er framundan þann 4. febrúar næstkomandi.