Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

TaKesha og María fóru á kostum gegn Haukum
Mánudagur 18. desember 2006 kl. 09:46

TaKesha og María fóru á kostum gegn Haukum

Keflavík komst í gær í toppsæti Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik eftir frækinn 92-85 sigur gegn Íslandsmeisturum Hauka. TaKesha Watson gerði 32 stig hjá Keflavík og María Ben Erlingsdóttir gerði 31 stig. Hjá Haukum var Helena Sverrisdóttir með 31 stig og 13 fráköst.

Keflavíkurkonur hófu leikinn af krafti og komust í 7-2. Haukakonur minnkuðu fljótt muninn í 14-12 en Keflavík leiddi að loknum fyrsta leikhluta 21-19. Annar leikhlutinn var svo æsispennandi þar sem liðin skiptust á því að hafa forystuna en þegar annar leikhluti var um það bil hálfnaður tók Ágúst Björgvinsson leikhlé hjá Haukum og hellti sér rækilega yfir sína liðsmenn. Eftir ægilega yfirhalningu gengu Haukastúlkur aftur út á völlinn og virtust hafa rankað við sér og komust yfir 34-35 í fyrsta sinn í leikhlutanum. Liðin gengu svo til leikhlés í stöðunni 45-45 þar sem TaKesha Watson gerði síðustu stig hálfleiksins á vítalínunni.

Helena Sverrisdóttir var með 16 stig í leikhléi og María Ben Erlingsdóttir 15.

TaKesha opnaði svo síðari hálfleikinn og gerði fjögur fyrstu stig þriðja leikhlutans og kom Keflavík í 49-45. Pálína Gunnlaugsdóttir minnkaði síðar muninn í 56-54 með þriggja stiga körfu. Þegar skammt lifði af þriðja leikhluta fékk Margrét Kara Sturludóttir sína fjórðu villu hjá Keflavík og varð því að fara sér hægt fyrir vikið. Keflavík hafði þó yfir fyrir lokaleikhlutann 71-66.

Ifeoma Okonkwo fékk snemma sína fimmtu villu í fjórða leikhluta og setti það nokkurt strik í reikning Hauka. Síðar í leikhlutanaum fékk Unnur Tara Jónsdóttir sína fimmtu villu og þá syrti verulega í álinn. Helena Sverrisdóttir reyndi hvað hún gat að halda Haukum inni í leiknum og þegar 1:30 mín voru til leiksloka var munurinn aðeins tvö stig, 84-82, Keflavík í vil.

Á endasprettinum var það svo Keflavík sem reyndist sterkari og urðu lokatölur 92-85 Keflavík í vil og fyrsti ósigur Hauka í Iceland Express deild kvenna því staðreynd. Keflavík vermir nú toppsætið með 18 stig en Haukar eru í 2. sæti með 16 stig en eiga leik til góða.

TaKesha Watson og María Ben Erlingsdóttir gerðu samanlagt 63 stig fyrir Keflavík í gær og áttu því drjúgan þátt í sigri Keflavíkur en heilt yfir litið var það sterk liðsvörnin sem skóp sigurinn.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/ Jón Björn Ólafsson og Þorgils Jónsson

 

 

 

 

 

 


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024