Taka við góðu búi
Félagarnir Guðjón Skúlason og Falur Harðarson þekkja lið meistaradeildar Keflavíkur mjög vel, enda hafa þeir spilað lengi með liðinu. Þeir segja tímana framundan vera spennandi og að þeir hafi tekið við góðu búi frá Sigurði Ingimundarsyni sem lét af störfum þjálfara vegna aukinnar ábyrgðar í starfi sínu hjá Myllubakkaskóla. Víkurfréttir litu inn á æfingu hjá meistaradeildinni á dögunum þar sem Guðjón og Falur stýrðu æfingu.
Þeir segja að það verði ekki miklar breytingar gerðar á þjálfun eða leik liðsins. „Við þekkjum þjálfun Sigurðar mjög vel og ætlum að halda okkur við þær aðferðir sem hann notaði. Auðvitað verða einhverjar breytingar, en þær verða voðalega litlar. Við komum til með að spila samskonar bolta og við höfum verið að gera,“ segir Falur en hann og Guðjón spiluðu samfleytt undir stjórn Sigurðar frá árinu 1996 þegar hann tók við þjálfarastöðu.
Reykjanesmótið er hafið en útkoman úr því móti segir oft til um hvernig baráttan á Íslandsmótinu verði. „Við spilum við meistara meistaranna þann 5. október og tökum þá á móti Snæfelli og upp úr því fer Íslandsmótið af stað. Í nóvember hefst síðan Evrópukeppnin, þannig að veturinn verður mjög spennandi,“ segir Falur en æfingar liðsins eru stífar og æft er daglega.
Guðjón og Falur hafa spilað lengi saman og þekkjast vel. „Þó við séum úr sitt hvorum árganginum þá erum við búnir að spila saman síðan við vorum 10 ára gamlir. Við þekkjumst því mjög vel og það á eftir að koma sér vel. Við höfum mikla reynslu úr körfuboltanum og þekkjum hvað Keflavíkurliðinu hefur gengið vel í gegnum árin og við förum ekkert að kollsteypa því sem byggt hefur verið upp. Við komum til með að halda því striki sem hefur verið sett á síðastliðnum 5 til 6 árum,“ segir Guðjón. Eins og áður segir er reynsla þeirra beggja mikil en Guðjón byrjaði að spila með meistaradeildinni árið 1983 og Falur einu ári síðar. „Okkar á milli á þjálfunin eftir að ganga mjög vel. Það verður kannski erfiðast að skipa í liðið.“
Þeir segja að liðið taki þeim vel sem þjálfurum. „Vonandi höfum við virðingu þeirra sem við höfum verið að spila með í gegnum árin og vonandi að menn beri traust til þeirra sem hafa farið í gegnum þetta eins oft og við höfum gert. Við erum bara spenntir og bjartsýnir,“ segja þeir félagar og voru roknir út á völlinn á æfingu liðsins í Íþróttahúsi Keflavíkur.