Tæpt var það!
Njarðvíkingar voru hársbreidd frá því að vinna sinn fyrsta sigur í Evrópukeppni í körfuknattleik þegar þeir töpuðu naumlega fyrir úkraínska liðinu Cherkaski Mavpy í kvöld, 96-98.
Leikurinn fór fram í íþróttahúsinu í Keflavík þar sem Ljónagryfjan uppfyllir ekki Evrópstaðla. Ákveðið óöryggi einkenndi fyrstu mínúturnar hjá Njarðvík þar sem gestunum gekk vel í sókninni og vörðu fyrstu tvö skot Njarðvíkinga í leiknum.
Þeir komust þó fljótt í gang en leikmenn Mavpy reyndust vera prýðisgóðar skyttur auk þess að eiga flest fráköst sem í boði voru. Friðrik Stefánsson fór fyrir sínum mönnum með miklum dugnaði undir körfunum.
Staðan eftir fyrsta leikhluta var 16-25, en í öðrum leikhluta létu Njarðvíkingar virkilega finna fyrir sér og náðu forystunni rétt undir lok hálfleiksins. Mavpy-menn náðu þó frumkvæðinu aftur og leiddu í hálfleik, 44-47. Varnarvinna Njarðvíkinga var til fyrirmyndar í þessum leikhluta og útlitið gott fyrir seinni hálfleikinn.
Það byrjaði þó ekki vel hjá þeim þar sem gestirnir óðu uppi og juku bilið jafnt og þétt. Þeir náðu mest 21 stigs forystu, 53-74 eftir 10-0 kafla og öll von virtist út hjá þeim grænklæddu.
Munurinn fyrir síðasta leikhlutann var 19 stig, 60-79. Njarðvíkingar settu hins vegar allar vélar í gang og slógu værukæra úkraínumennina út af laginu með mikilli pressuvörn um allan völl. Þeir voru leiftursnöggir að snúa leiknum sér í hag og eftir tvær mínútur voru þein búnir að minnka muninn niður í 11 stig og allt galopið.
Eftir því sem á leið minnkaði munurinn stöðugt og rafmögnuð spenna var á lokasekúndunum. Brenton Birmingham jafnaði leikinn í 96-96 þegar 25 sek voru eftir en Mavpy komst yfir jafn harðan.
Njarðvík átti boltann þegar 15 sek voru eftir og þeir tveimur stigum undir. Jeb Ivey kom upp með boltann en var stífdekkaður, enda hitti hann úr 7 af 9 þriggja stiga skotum í leiknum. Hann gaf á Jóhann sem var í góðu færi en boltinn hrökk af hringnum og Mavpy slapp með skrekkinn.
Friðrik og Ivey fóru fyrir sínum mönnum, Friðrik var með 28 stig og Ivey með 27. Lið gestanna bjó yfir mikilli breidd þar sem fimm leikmenn skoruðu yfir 10 stig. Þeirra fremstur var þó Arthur Johnson sem var með 19 stig, 11 fráköst og heil 6 varin skot.
Næsti Evrópuleikur Njarðvíkinga er í Keflavík næstkomandi miðvikudag, gegn Tartu Rock, en í millitíðinni sækja þein KR heim á sunnudag.
Tölfræði leiksins
VF-myndir/Þorgils - Fleiri myndir í veglegu myndasafni til hægri á síðunni.