Íþróttir

Taekwondo er fjölskylduíþrótt
Laugardagur 28. desember 2013 kl. 07:14

Taekwondo er fjölskylduíþrótt

Taekwondo er kóresk sjálfsvarnar og bardagaíþrótt sem og ólympísk keppnisgrein. Taekwondo er byggt á ævaforni bardagatækni sem var þróuð á Kóreuskaganum. Taekwondo varð fyrst að opinberri keppnisgrein á Ólympíuleikunum í Sidney árið 2000 og hefur átt vaxandi fylgi síðan. Taekwondo deild Keflavíkur hefur verið starfandi einnig frá árinu 2000. Í dag er deildin sú sigursælasta á landinu og hefur verið það um árabil. Fjölmargir iðkendur á öllum aldri æfa hjá félaginu og eru hópar fyrir iðkendur í 1. bekk og uppúr. Nú í haust var byrjað með byrjendahóp fullorðna sem vilja læra grunnfærni í taekwondo á rólegri hraða. Þar er farið vel í grunntækni, bættan styrk, liðleika, jafnvægi og upplýsingar um íþróttina. Námskeiðin voru vel sótt og tók hópurinn m.a. beltapróf í lok annar fyrir fyrsta beltinu í taekwondo. Mikið var um að foreldrar iðkenda eða aðrir áhugasamir sem vilja æfa með minna álagi hafi komið á námskeiðið og haft gagn og gaman af.

Taekwondo er fjölksylduíþrótt hjá taekwondodeild Keflavíkur, og sést það best í þeirri flóru iðkenda sem þar æfa. Þar eru 6 ára byrjendur sem hafa aldrei æft neitt annað, upp í landsliðsmenn með svarta beltið, foreldrar æfa gjarnan með börnunum sínum og jafnvel barnabörnum.



Hér á myndinni má sjá eina öfluga taekwondo fjölskyldu úr Sandgerði, en hér eru þrír ættliðir, amman, tvö börn og barnabarn. Öll tóku þau beltapróf í lok haustannar.

Benjamín Smári Kristjánsson - 12 ára, grænt belti
Ástrós Sóley Kristjánsdóttir - 16 ára, gul rönd
Sigurborg Sólveig Andrésdóttir - 46 ára, gul rönd
Alexander Freyr Andrésson - 7 ára, gul rönd




Hérna eru líka 3 feðgar
Svanur Þór Mikaelsson 13 ára rautt / svart belti
Mikael Þór Halldórsson 40 ára gult belti
Jón Steinar Mikaelsson 7 ára appelsínugult belti


Þetta er þó eingöngu eitt dæmi af mörgum en bara á þessari önn hafa fimm fjölskyldur í Keflavík tekið beltapróf, mæðgur hafa tekið svart belti saman, fjölskyldumeðlimir keppt á mótum o.s.fv.

Nú er formlegt jólafrí hafið hjá deildinni þótt landsliðsmenn og áhugasamir munu sækja aukaæfingar yfir hátíðirnar. Æfingar hefjast aftur 6. janúar í öllum flokkum og boðið verður upp á byrjendanámskeið fyrir börn, unglinga og fullorðna. Nánar um það má sjá á keflavik.is/taekwondo

Einnig eru taekwondo æfingar hjá Grindavík en einnig er fjölskylda þar sem æfir saman, nánar um það á umfg.is

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024