Taekwondo æft á fullu þrátt fyrir æfingabann
„Fyrsta vikan eftir að hefja mátti æfingar gekk vonum framar en 98% iðkenda komu aftur í þeirri viku. Það var gífurlega gaman að sjá iðkendur koma til baka og langflestir betri en þeir voru fyrir sex vikum enda hafa næstum allir verið duglegir að nýta æfingarnar sem voru í boði,“ segir Helgi Rafn Guðmundsson, þjálfari hjá Taekwondo-deild Keflavíkur, en þegar samkomubann var í gangi bauð deildin öllum fjölskyldum iðkenda sinna upp á ókeypis heimaæfingar auk þess sem fjöldi úrlausna voru í boði fyrir iðkendur deildarinnar.
Allir iðkendur fengu í það minnsta sex heimaæfingar á viku sem þeir gátu valið úr og í hverri viku fengu þau nýjar æfingar. Æfingarnar voru sendar með XPS-æfingaforritinu og iðkendur merktu við hvað þau voru að gera á æfingum. Þannig gátu þjálfarar fylgst með hverjir eru að æfa og heimaæfingar gilda sem mæting á æfingu. Yfir 100 iðkendur tóku þátt í þessum æfingum.
Þá skiptu þjálfara með sér ZOOM-æfingum þrisvar sinnum í viku þar sem iðkendur gátu verið með heima og þær æfingar voru vel sóttar. Meira að segja iðkendur utan af landi tóku þátt í æfingunum.
Þjálfarar buðu líka upp á einkatíma í gegnum ZOOM. Þar gátu iðkendur verið í beinni með þjálfara sem hjálpaði þeim með æfingarnar sínar. Einnig voru þjálfara í samskiptum við iðkendur og fjölskyldur þeirra með æfingar og beltagráðanir. Það hafa tveir iðkendur fengið nýja beltagráðu í gegnum netið og það er í fyrsta skipti hjá félaginu sem iðkendur ná belti í gegnum einkatíma á netinu.
Það voru reglulegar áskoranir, t.d. myndasamkeppni og iðkendur senda inn hvernig þeir brjóta páskaaegg með taekwondo-sparki svo dæmi séu tekin.
„Þjálfarar eru mjög stoltir af því hversu vel gekk að halda iðkendum virkum í sex vikur í samkomubanni en einnig hafa foreldrar og systkini tekið þátt í æfingunum við mikinn fögnuð,“ sagði Helgi Rafn.