Tæklarinn Unnar Már
Hinn 19 ára gamli varnarmaður, Unnar Már Unnarsson vakti athygli fyrir vasklega frammistöðu gegn KR þegar Keflvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Unnar átti nokkrar hressilegar tæklingar og stóð vaktina vel í vörninni í sínum fyrsta leik í efstu deild. Vinir hans grínuðust með viðurnefnið „Tæklingarmaðurinn“ vegna tilþrifa hans gegn KR-ingum, nú er bara spurning hvort það nafn nái fótfestu en ljóst er að Unnar er harður í horn að taka.
Unnar segir að sér hafi liðið vel í þessum fyrsta sínum leik á stóra sviðinu. „Mér leið mjög vel á vellinum. Það hjálpaði til að ég hafði spilað töluvert á undirbúningstímabilinu. Það er auðvitað smá stress þegar maður er að spila svona leik, en maður verður bara að setja það til hliðar,“ segir hann pollrólegur. Unnar hefur leikið í stöðu miðvarðar allt frá því í 4. flokki en hann hefur ýmist leyst þá stöðu eða stöðu bakvarðar með meistaraflokki hingað til. Hann segist kunna betur við sig í miðvarðarstöðunni.
Missti úr síðasta ár vegna veikinda
Unnar er mikill íþróttamaður en hann býr yfir miklum sprengikrafti, líkamsstyrk og er alls óhræddur við að fleygja sér í tæklingar að sögn þeirra sem þekkja til kauða. Hann var í Skólahreystiliði Heiðarskóla á sínum tíma, en liðið hafnaði í 2. sæti árið 2010. Auk þess æfði hann körfubolta til 15 ára aldurs. Myndband af Unnari vakti nokkra athygli á vefnum fyrir nokkru en þar var hann að framkvæma æfingar sem eiga meira skylt við fimleika en fótbolta. „Ég veit ekki alveg hvað ég á að kalla þetta, þetta voru einhvers konar fimleikaæfingar,“ segir Unnar léttur í bragði. Hann hefur látið til sín taka í lyftingasalum en það kom að mestu leyti til vegna þess að hann glímdi við fremur óvenjuleg meiðsli sé héldu honum meira og minna frá keppni í fyrra. „Ég var að glíma við magabakflæði sem aftraði mér frá fótbolta í heilt ár. Ég gat eiginlega ekkert hlaupið nema í stuttan tíma í senn. Á þeim tíma var ég mikið í ræktinni og vann vel þar.“ Núna eru þessi meiðsli að baki og há Unnari ekki að neinu ráði.
Það er sjálfsagt draumur hvers fótboltastráks úr Keflavík að spila sinn fyrsta leik í efstu deild fyrir fullum Nettóvelli gegn KR. Unnar tekur undir það en úrslitin hefðu hins vegar getað farið á betri veg. „Mér fannst þetta jafn leikur. Eins hefur líklega oftar verið leikinn fallegri fótbolti á Nettóvellinum en í þessum leik. Að mínu mati var þetta sanngjarnt jafntefli. Því miður vorum við óheppnir að fá á okkur þetta mark undir lokin. Það er lítið í þessu að gera. Við verðum bara að halda haus og vera tilbúnir í næsta leik.“ Sá leikur er gegn FH á fimmtudag (22. maí)
Kristján þjálfari hefur verið óhræddur við að gefa mönnum tækifæri og ungu strákarnir fá að njóta góðs af því. „Við erum með fína breidd og það eru allir tilbúnir að koma inn og gera sitt fyrir liðið. Eldri strákarnir eru ótrúlega fínir og hjálpsamir og eru duglegir að kenna okkur öll „trikkin í bókinni“ sem þeir kunna,“ segir varnarmaðurinn ungi. „Ég vonast eftir að fá tækifæri í sumar. Ég er tilbúinn að spila. Ég er nú í þannig stöðu að það er ekkert verið að breyta of mikið til þar. Það er því ekkert annað að gera en að nýta tækifærin þegar þau koma.“
Hér má sjá myndbandið þar sem Unnar framkvæmir ansi krefjandi æfingar.