Systurnar Jóhanna og Stefanía á leið á Heimsleikana
-Fengu brons á Evrópumótinu í CrossFit
Systurnar Jóhanna Júlía og Stefanía Júlíusdætur eru afrekskonur í íþróttum en síðustu ár hafa þær stundað CrossFit af kappi. Í síðustu viku tryggðu þær sér sæti á Heimsleikunum í CrossFit, sem fram fara í Bandaríkjunum í byrjun ágúst næstkomandi, þegar þær unnu til bronsverðlauna í liðakeppni Evrópumótsins sem fram fór í Madrid á Spáni.
Stefanía og Jóhanna ásamt liði sínu á leikunum.
„Á Heimsleikana vilja allir fara og keppa, sá sem vinnur það mót verður heimsmeistari. Fimm efstu sætin í einstaklingskeppninni og fimm efstu sætin í liðakeppninni komast áfram á Heimsleikana,“ segir Jóhanna Júlía í samtali við Víkurfréttir.
„Við vorum búin að æfa mikið af æfingum sem allir liðsmennirnir vinna saman að. Núna þarf maður bara að vera undirbúinn fyrir allt á Heimsleikunum. Maður gæti keppt í hlaupi eða sjósundi til dæmis. Sá sem býr til æfingarnar ákveður oft nýjar æfingar á hverju ári,“ segir Jóhanna.
Systurnar æfðu lengi vel sund en báðar tóku þær þátt í skólahreysti sem unglingar. Þar setti Jóhanna Íslandsmet í armbeygjum, samtals 177 stykki, sem hefur enn ekki verið slegið.
Jóhanna Júlía tilbúin í slaginn í Madrid.