Synt í tvo sólarhringa
Fjögur sundfélög eru í æfingabúðum í Grindavík um helgina þar sem synt verður linnulaust í tvo sólarhringa. Auk Grindvíkinga er um að ræða Breiðablik, Reyni frá Sandgerði og Vestra frá Ísafirði.
Að sögn Magnúsar Más Jakobssonar sundþjálfara í Grindavík hafa félögin átt í samstarfi í nokkur ár og kom það til vegna tengsla þjálfaranna. Félögin hafa reynt að vera með sameiginlegar æfingabúðir tvisvar á ári ef hægt er. „Félögin sem hafa tekið þátt í þessu hafa stundum verið fleiri og stundum færri. Við reynum að efla samvinnu á milli félaganna og læra hver af öðrum,“ sagði Magnús í samtali við mbl.is.
Maraþonið hófst í dag klukkan 16 í sundlauginni í Grindavík en liðin skiptast á að æfa í lauginni. Síðasta æfingin er áætluð klukkan 14 á sunnudaginn. 75 sundkrakkar á aldrinum 9 - 18 ára taka þátt í æfingabúðunum. Til stóð að Hornfirðingar yrðu með en hætt var við það vegna eldgossins.